Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:00:28 (585)

2003-10-15 14:00:28# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál. Það er alveg ljóst að hv. þingmönnum er heitt í hamsi, enda eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að í ræðu voru yfirlýsingar í kosningabaráttunni afar digrar. Þetta var eitt af meginstefnumálum Framsfl. og það skýtur skökku við þegar hæstv. menntmrh. kemur hér fram með svar sem segir: Engin formleg skref tekin, ýmsar leiðir opnar, verið að hugleiða allt. Þetta eru auðvitað ekki nægilega góð svör fyrir fólkið sem er að afla sér menntunar eða fyrir fólkið sem er að reyna að skrapa saman til þess að eiga fyrir afborgunum námslánanna sinna. Hæstv. ríkisstjórn verður að gera sér grein fyrir því að orð og athafnir þurfa að haldast í hendur. Ef menntun er jafnmikilvæg fyrir afkomu þessa lands og ríkisstjórnin vill vera láta á tyllidögum verður hæstv. ríkisstjórn að hafa efndir sínar í samræmi við þær yfirlýsingar. Og efndirnar áttu auðvitað að vera þær og hefðu að öllu jöfnu átt að vera farnar að sjást. Fyrsta starfsár þessarar ríkisstjórnar er löngu hafið og tækifærin fyrir Framsfl. að halda Sjálfstfl. vel að verki hafa verið næg í þessu tilliti. Það hefur Framsfl. ekki lánast hingað til en við skulum vona að honum eflist þrek og þor og þess verði ekki langt að bíða, þess þurfi ekki að bíða fram til ársins 2007, að þetta digra kosningaloforð framsóknarmanna verði efnt.