Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:04:26 (587)

2003-10-15 14:04:26# 130. lþ. 11.3 fundur 68. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram einu sinni sem oftar fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um hvað líði býsna gömlum loforðum nú að verða um að reisa menningarhús á landsbyggðinni. Ekki man ég hvort þetta er í þriðja eða fjórða skiptið í röð sem ég legg fram þessa fyrirspurn en ástæðan er auðvitað einfaldlega sú að ósköp lítið hefur gerst.

Hin stórbrotnu loforð voru gefin 7. janúar 1999 og það dugði ekki minna til en fjóra ráðherra á blaðamannafundi til að kynna landslýð fagnaðarerindið og það var undir yfirskriftinni: Til að menning og listir fái blómstrað.

Margt vakti strax athygli við þessi loforð, þar á meðal að fimm staðir voru valdir út á landsbyggðinni og tilgreindir sérstaklega, þ.e. Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar. Þarna í hópnum var t.d. ekki Selfoss þar sem hefur þó lengi staðið hálfklárað gríðarlega mikið menningarhof, stórt svið og stór gryfjusalur sem sannarlega gæti notið sín vel sem menningarmiðstöð fyrir Suðurlandsundirlendið og sunnanvert landið ef það hús yrði klárað. Síðan tóku árin að líða, frú forseti, og nú er svo komið að fjögur ár og níu mánuðir rúmir eru liðnir frá þessum loforðum, tvennar alþingiskosningar að baki og enn er ekkert hús tekið að rísa. Að einhverju leyti eru málin komin í farveg, a.m.k. hefur mikil vinna verið unnin eins og á Akureyri þar sem heimamenn tóku strax mjög vel í fyrirheit stjórnvalda og buðu upp á samstarf. Þeim var í raun og veru fátt að vanbúnaði strax fyrir 3--4 árum með að spýta í lófana og hefjast handa. En þetta hefur tekið ógurlegan tíma og virtist að meira og minna leyti vera að lenda í útideyfu, samanber svör hæstv. ráðherra til mín í fyrrahaust, 6. nóvember sl., því að þá var staðan einfaldlega sú að ýmist var ekkert að gerast eða viðræður í gangi á þessum fimm stöðum. Menn mundu hins vegar eftir loforðinu í febrúar sl. þegar ákveðið var að auka fjármagn til vegamála og fleiri framkvæmda og þá var ákveðið að setja einn milljarð í þetta verkefni. En vel að merkja, þá voru tilgreindir tveir staðir, Akureyri og Vestmannaeyjar, og það vakti sérstaklega undrun að Vestmannaeyjar skyldu vera í þessum hópi vegna þess að í svari ráðherra 6. nóvember 2002 er sagt að hugmyndir Vestmannaeyinga um menningarhús í nýja hrauninu hafi ekki verið þróaðar frekar. Engu að síður taldi ríkisstjórnin efni til að tilgreina Vestmannaeyjar sérstaklega þarna strax nokkrum mánuðum síðar.

Margt vekur sem sagt undrun, frú forseti, í sambandi við þetta og er greinilegt að ekki veitir af að veita hæstv. ríkisstjórn aðhald. Það mun ég gera hér eftir sem hingað til. Að vísu gefst sennilega tæplega færi á að spyrja núverandi hæstv. menntmrh. oftar en í þetta skipti um málið en það verður þá sá þriðji sem næst svarar fyrir þetta að ári. Og spurningin er:

Hvað líður efndum fyrirheita ríkisstjórnarinnar frá því fyrir næstsíðustu alþingiskosningar, sem kynnt voru 7. janúar 1999 af fjórum ráðherrum, um að koma upp menningarhúsum á landsbyggðinni?