Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:07:51 (588)

2003-10-15 14:07:51# 130. lþ. 11.3 fundur 68. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Frá því að menntmrh. svaraði síðast fyrirspurn þingmannsins, fyrir um það bil ári, m.a. um undirbúning að byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni hafa áform ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í að reisa menningarhús utan höfuðborgarsvæðisins þróast svona: Á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 11. febrúar 2003 var ákveðið að veita einn milljarð kr. til byggingar menningarhúss á Akureyri og í Vestmannaeyjum.

Ef við lítum fyrst á Akureyrardæmið er það svo að samkomulag ríkisins og Akureyrarbæjar um byggingu menningarhúss á Akureyri var undirritað 7. apríl sl. Í samkomulaginu er miðað við að heildarkostnaður verði ekki hærri en 1.200 millj. kr. Framlag ríkisins er 60%, þ.e. 720 millj. kr., á móti 40% af hálfu Akureyrarbæjar. Ráðgert er að húsið rísi á uppfyllingu við Torfunesbryggju og verði vettvangur menningarstarfsemi á Norðurlandi. Skipuð hefur verið verkefnisstjórn sem mun vinna greinargerð um fyrirhugaða nýtingu hússins, greina rýmisþörf, skila framkvæmda- og tímaáætlun, kostnaðaráætlun og fjármögnunaráætlun sem taki mið af fjárframlögum. Einnig skal verkefnisstjórnin hafa umsjón með gerð útboðsskilmála fyrir bygginguna og vinna að samþykkt milli samningsaðila um tilhögun starfsemi í húsinu og nýtingarform. Það er gert ráð fyrir því að nefndin skili verki sínu á næstunni.

Að því er varðar Vestmannaeyjar var undirritað samkomulag vegna byggingar menningarhúss í Vestmannaeyjabæ 21. mars sl. Í samkomulaginu er við það miðað að heildarkostnaður verði ekki meiri en 300 millj. kr. Framlag ríkisins er 60%, þ.e. 180 millj. kr., á móti 40% af hálfu Vestmannaeyjabæjar. Að auki mun menntmrn. leggja til allt að 100 millj. kr. til uppbyggingar safnaaðstöðu í Vestmannaeyjabæ sem verður hluti af eða tengt menningarhúsinu. Það hefur verið skipuð verkefnisstjórn sem hefur fundað tvisvar sinnum og ákveðið hefur verið að láta fram fara þarfagreiningu og vinna áfram að skoðun þeirra hugmynda sem fram hafa komið um þetta mál. Stefnt er að því að fyrir áramót verði hægt að taka ákvörðun um það hvaða leið skuli valin.

Að því er varðar Austur-Hérað liggur fyrir skýrsla starfshóps um útfærslur á hugmyndum um menningarmiðstöð á Austur-Héraði sem unnin var að tilstuðlan sveitarfélagsins. Þessi skýrsla starfshópsins liggur fyrir og þar er komist að þeirri niðurstöðu að best verði að byggja menningarhús í tengslum við stjórnsýslubyggingu í miðbæ Egilsstaða. Þá hafa menntmrn. og bæjarstjórn Austur-Héraðs verið kynntar hugmyndir fjárfesta um uppbyggingu á Eiðum þar sem gert er ráð fyrir því að starfrækt verði alþjóðlegt mennta- og menningarsetur en í raun hefur engin afstaða verið tekin til þessa máls enn þá.

Ríkisstjórnin ákvað að veita jafnframt samtals 51 millj. kr. á árunum 2002--2004 til uppbyggingar þriggja menningarmiðstöðva á Austurlandi.

Að því er varðar Ísafjörð er í gildi samningur um uppbyggingu menningarhúsa á Ísafirði sem var undirritaður 25. apríl sl. Hann kveður á um að fé verði veitt til uppbyggingar þriggja húsa, Edinborgarhússins, bóka- og listasafna í Gamla sjúkrahúsinu og tónlistarsalar við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Heildarfjárhæð samningsins nemur 418 millj. kr. og þar af greiðir ríkissjóður 60%, þ.e. 251 millj. kr. Framkvæmdum er lokið við Gamla sjúkrahúsið og starfsemi safnanna er hafin þar.

Hið sama gildir um tónlistarsalinn Hamra. Unnið er að gerð áætlunar um framkvæmdir við Edinborgarhúsið og er þar m.a. gert ráð fyrir aðstöðu fyrir sviðslistir.

Hugmyndir Skagfirðinga um menningarhús eru í anda þeirra hugmynda sem unnið hefur verið með á Ísafirði og Austfjörðum. Á næstu dögum verður skipaður samstarfshópur til að fara yfir hugmyndir heimamanna í þessum efnum. Það er því ljóst af þessu að stigin hafa verið stór skref í framkvæmd þessa máls sem hefur tekið nokkurn undirbúningstíma sem eðlilegt er því hér er um mjög stór viðfangsefni að ræða. Það var fullkomin ástæða til þess að verja miklum tíma til þess að skoða málið frá grunni og finna skynsamlegar leiðir til þess að framkvæma þessa hluti. Það má heldur ekki gleyma því að frá upphafi voru þessar framkvæmdir við menningarhús tengdar sölu ríkiseigna og að því er varðar staðina sem fyrir valinu urðu hygg ég að ég muni fá tækifæri til þess að geta aðeins um forsendurnar fyrir þeim hugmyndum í umræðum á eftir.