Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:12:46 (589)

2003-10-15 14:12:46# 130. lþ. 11.3 fundur 68. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er fullkomin ástæða til að skoða málin frá grunni, sagði hæstv. ráðherra. Ég get tekið undir það en tel að það hafi ekki verið gert. Það var til að mynda ekki haft samráð við samtök sveitarfélaga á þeim stöðum þar sem ákveðin var staðsetning menningarhúsanna. Vafalaust hefur einhver athugun farið fram hjá hæstv. ríkisstjórn með staðsetningu menningarhúss á Suðurlandi og menn af einhverjum ástæðum komist að þeirri niðurstöðu að það væri best komið í Vestmannaeyjum. Þó væri eðlilegt að í raun og veru væri um tvö menningarhús að ræða, annað uppi á landi og hitt úti í Eyjum.

Það er líka búið að setja sérstaka löggjöf um söfn landsins og það er safnaráð eða safnastjórn sem á að fara með úthlutun fjármuna til reksturs safna en engu að síður tekur hæstv. ríkisstjórn sig til og ákveður að setja 100 millj. í að byggja upp söfn á ákveðnum stöðum. Málin eru ekki skoðuð frá grunni.