Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:14:39 (591)

2003-10-15 14:14:39# 130. lþ. 11.3 fundur 68. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Það er að vísu rétt að það hefur nokkuð miðað frá því að við ræddum þetta fyrir ári. Þetta er að verða svona eins og leikritið góða, Á sama tíma að ári, árlegur atburður, þessi yfirheyrsla á hæstv. ríkisstjórn. En það er þó fyrst og fremst það að ríkisstjórnin mundi eftir þessu þegar það hentaði og stóð til að auka framkvæmdir sem að vísu er ljóst að muni ekki gerast á því árabili sem menn voru með þær í huga, þ.e. þessu ári og hinu næsta. Það mun hvergi koma til neinna framkvæmda fyrr en síðar, að því er best verður séð, nema þar sem menn eru að setja þetta í endurgerð gamalla húsa.

Það sem að öðru leyti hefur gerst er fyrst og fremst það, og það er jákvætt svo langt sem það nær, að á einum þrem stöðum hafa verið undirritaðir samningar og það var gert með pompi og prakt auðvitað og tilheyrandi veisluhöldum skömmu fyrir kosningar eins og gjarnan er í þessum efnum. Hins vegar hefur síðan kannski ekki mjög mikið gerst. Tíminn er ótrúlega fljótur að líða. Það er enginn að mæla með því, hæstv. ráðherra, að menn rasi um ráð fram. Auðvitað þarf að greina þarfir og meta stöðuna. En það liggur t.d. fyrir að Akureyringar voru tilbúnir með þau áform sem núna stefnir allt í að verði fyrir valinu, þ.e. byggingu á hafnarsvæðinu niður undan miðbænum fyrir þremur, þremur og hálfu ári síðan. Svo spiluðust inn í þetta hugmyndir sem reyndust ekki raunhæfar og hafa í raun og veru bara tafið málið.

Það hefur því miður lítið gerst varðandi Skagfirðinga og ég vona að því verði fylgt eftir þannig að sá staður fái sambærilega úrlausn. Ég tek það fram að ég tel t.d. hugmyndir Ísfirðinga til fyrirmyndar, að grípa frekar í útrétta hönd ríkisvaldsins og fá samninga um að endurgera merkileg hús og byggja fleiri en eina menningarmiðstöð. Og ég nefni aftur Selfoss og þá möguleika sem þar eru. Ég tel að ríkisstjórnin hljóti í framhaldlinu að skoða þann möguleika að fleiri staðir komi inn í myndina, t.d. Suðurlandið og þá virðist Selfoss næsta sjálfgefið. Ég nefni Vesturland, stað eins og Stykkishólm þar sem eru gömul og sögufræg hús, og Þingeyinga sem engan samning hafa við ríkið um sín menningarmál.