Bygging menningarhúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:16:55 (592)

2003-10-15 14:16:55# 130. lþ. 11.3 fundur 68. mál: #A bygging menningarhúsa á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég hef víst ekki nema tvær mínútur til að svara þessu en ég skal reyna að gera það eins vel og ég get.

Í fyrsta lagi var hugmyndin um menningarhúsin frá upphafi kynnt þannig að það væri verið að koma til móts við þá sem væru lengst frá Reykjavík, annaðhvort vegna vegalengda eða vegna samgangna. Þess vegna voru valdir úr þeir staðir sem valdir voru. Það var talað um það á þeim nótum að þeir sem væru í þeirri nálægð við höfuðborgarsvæðið að þeir gætu nýtt sér þá menningu, það mikla menningarframboð sem er á höfuðborgarsvæðinu, þyrftu ekki eins á þessu að halda, það væri verið að bæta hinum upp fjarlægðirnar. Þannig fór hugmyndin af stað, það eru enn rökin fyrir þessu og hafa alltaf verið.

Það má líka geta þess að fjármögnunin á þessu dæmi var alltaf tengd sölu ríkiseigna, frá upphafi. Þess vegna ber að geta þess að framkvæmdir og ákvarðanir um fjármögnunina fóru af stað þegar búið var að tryggja sölu ríkiseigna.

Í síðasta lagi langar mig til að geta þess alveg sérstaklega að auðvitað eru framkvæmdir komnar á fulla ferð. Það er búið að framkvæma heilmikið á Austurlandi, framkvæmdirnar eru í fullum gangi á Ísafirði og þróun mála á Akureyri hefur verið mjög góð, og var nauðsynleg. Það var nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að fara yfir málin á Akureyri og sú lending sem nú er í augsýn veldur því að það verður hægt að reka þetta hús en það er ekki hægt að segja það sama um þær hugmyndir sem upphaflega voru á borðinu, að það hefði verið auðvelt að reka það hús.

Ég held því að menn eigi að líta til þess að hér er verið að efna til stórra verkefna. Húsið á Akureyri verður það stóra hús sem verður reist á þessari öld. Við þurfum að vanda vel til þess, við þurfum að tryggja bæði að húsið muni rísa undir nafni en einnig að það verði eins góður rekstrargrundvöllur undir húsinu og frekast er unnt. Það má ekki verða íþyngjandi, hvorki fyrir ríkissjóð né fyrir sveitarfélagið, að reisa menningarhús af þessu tagi. Það þarf að vera hægt að reka það.