Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:22:41 (594)

2003-10-15 14:22:41# 130. lþ. 11.5 fundur 120. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Íþróttamiðstöð Íslands hefur sl. sjö ár starfað undir umsjón íþróttaskorar Kennaraháskóla Íslands samkvæmt samkomulagi menntmrn. og Íþróttamiðstöðvarinnar frá 17. maí 1996. Undanfarin ár hafa nokkrir starfshópar á vegum ráðuneytisins unnið að tillögum sem miða að því að endurreisa og styrkja rekstur Íþróttamiðstöðvar Íslands að Laugarvatni.

Á fjárlögum 2003 voru veittar 20 millj. kr. vegna viðhalds á húsum Íþróttamiðstöðvar Íslands. Þar af var 5 millj. kr. varið til að sinna brýnu viðhaldi á húsnæði Héraðsskólans á Laugarvatni. Alls fara því um 15 millj. kr. til endurbóta á heimavistarhúsnæði Íþróttamiðstöðvarinnar.

Menntmrn. hefur óskað eftir tilnefningum í starfshóp frá Íþrótta- og Ólympíusambandinu, Kennaraháskóla Íslands og Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga og var ætlunin að tilnefningar bærust eigi síðar en í dag. Starfshópurinn hefur það verkefni að fullgera reglugerð og skipulagsskrá. Í framhaldinu er fyrirhugað að skipa stjórn Íþróttamiðstöðvarinnar en sú stjórn mun móta markmið og stefnu varðandi uppbyggingu hennar.

Þess má geta að drög að skipulagsskrá voru unnin sl. sumar af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga í samráði við fulltrúa ráðuneytisins og fulltrúa frá Íþróttafræðasetri Kennaraháskóla Íslands. Í þeim drögum er ráðgert að Íþróttamiðstöðin verði sjálfseignarstofnun er heyri undir menntmrn., Íþrótta- og Ólympíusambandið, sveitarstjórn og Kennaraháskóla Íslands og er það í samræmi við skýrslur vinnuhópanna.

Það er einnig spurt hér hvort tekin hafi verið ákvörðun um endurbætur á gamla héraðsskólahúsinu og nýtingu þess. Í apríl sl. var undirritað friðunarskjal fyrir héraðsskólahúsið og þar með tryggt að ytra byrði hússins, anddyri og fyrirkomulag við stiga fái að standa óbreytt. Í fjárlögum 2003 var 5 millj. kr. varið í brýnt viðhald á héraðsskólahúsinu.

Ákveðið hefur verið að aðskilja rekstur og uppbyggingu héraðsskólahússins frá Íþróttamiðstöð Íslands. Enn hefur ekki verið tekin frekari ákvörðun um nýtingu héraðsskólahússins en menntmrn. hefur farið fram á tillögur frá sveitarstjórninni þar að lútandi. Tillögur sveitarstjórnar hafa enn ekki borist en ráðuneytið bindur vonir við að þær tillögur verði grundvöllur fyrir næstu skref í málinu. Af hálfu menntmrn. er litið svo á að fyrst þurfi að taka ákvörðun um það hvernig eigi að nýta gamla héraðsskólahúsið áður en ráðist verður í endurbætur á því. Ákvörðun um fjárframlög til frekari endurbóta er því ekki tímabær fyrr en fyrir liggur með hvaða hætti eigi að nýta þetta húsnæði.

Með öðrum orðum er ljóst að þær hugmyndir sem gerðu ráð fyrir því að héraðsskólahúsið yrði hluti af þessari uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar hafa ekki fengið stuðning innan menntmrn. enda voru víðar en þar efasemdir um að þar væri skynsamlega að málum staðið.