Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:34:03 (598)

2003-10-15 14:34:03# 130. lþ. 11.4 fundur 102. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Sá vandi Ríkisútvarpsins sem á því hvílir vegna lífeyrisskuldbindinga og hv. þm. vísar til í fyrirspurn sinni er vissulega mikill. Það er eindreginn vilji stjórnvalda að reyna að finna lausn á þessum vanda Ríkisútvarpsins og hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar í því sambandi. Vandi þessi á að hluta til rætur að rekja til ársins 1993 þegar sú ákvörðun var tekin af hálfu stjórnvalda að láta B-hluta ríkisstofnanir standa sjálfar undir lífeyrisskuldbindingum. Þessar skuldbindingar hafa reynst sumum stofnunum menntmrn. sem hafa litlar sértekjur þungur baggi að bera. Má sérstaklega í því sambandi nefna Þjóðleikhúsið og Sinfónínuhljómsveit Íslands. Hvað Þjóðleikhúsið varðar þá hefur sú stofnun verið færð undir A-hluta ríkisreiknings. Á henni hvíla því ekki lengur lífeyrisskuldbindingar eins og raunin er með B-hluta stofnanir. Hvað Sinfóníuhljómsveitina varðar þá get ég greint frá því hér að nú hillir undir lausn á þeim vanda sem hún á við að etja vegna lífeyrisskuldbindinga en rekstraraðilar hljómsveitarinnar hafa að undanförnu unnið að samkomulagi til að leysa þann vanda. Standa vonir til þess að það geti orðið á allra næstu vikum.

Vandi Ríkisútvarpsins vegna lífeyrisskuldbindinga er að mörgu leyti eða sumu leyti hliðstæður. Ótvírætt er að lífeyrisskuldbindingar hafa íþyngt rekstri og greiðslustöðu Ríkisútvarpsins á undanförnum árum. Stofnunin gerði upp skuldir sínar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir tveimur árum með því að taka á sig skuldabréf til 25 ára. Eftirstöðvar skuldabréfsins voru um síðustu áramót rétt rúmlega 2,6 milljarðar kr. og nemur árleg greiðsla vaxta og afborgana af skuldabréfinu um 200 millj. kr.

Á undanförnum missirum hefur ýmislegt áunnist í því að bæta rekstur Ríkisútvarpsins og þar hefur vissulega náðst fram nokkur sparnaður. Á stjórnendum þess hvílir sú skylda að gera enn betur í rekstri stofnunarinnar og leita allra leiða til að ná fram sem bestri nýtingu á þeim miklu fjármunum sem stofnunin hefur yfir að ráða og til hennar renna.

Undanfarin ár hefur Ríkisútvarpið verið rekið með halla. Halli á rekstrinum var 337 millj. kr. árið 2001, 188 millj. kr. árið 2002 og í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að hallinn gæti numið allt að 215 millj. kr.

Í frv. til fjárlaga 2004 er gert ráð fyrir 155 millj. kr. halla þrátt fyrir kröfu um óbreytt útgjöld og hækkun tekna þó vitað sé að útgjöld muni að óbreyttu hækka, m.a. vegna kjarasamningsbundinna hækkana launa í ársbyrjun 2004 en launin eru um helmingur af útgjöldum Ríkisútvarpsins. Eftir stendur þó að hinar þungu lífeyrisskuldbindingar gera rekstur Ríkisútvarpsins mjög erfiðan og hafa stjórnvöld fullan skilning á því. Fyrir liggur erindi frá útvarpsstjóra um hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess erindis enn þá en menntmrn. fer nú yfir fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins m.a. í tengslum við þessa málaleitun útvarpsstjóra um hækkun afnotagjalda, en einnig í tengslum við uppgjör lífeyrisskuldbindinganna og þá á ég við lífeyrisskuldbindingar Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem áður var vikið að og snerta vissulega fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Það er von mín að þessari yfirferð ráðuneytisins verði lokið bráðlega og að þar finnist farsælleg lausn á þessu stóra vandamáli Ríkisútvarpsins sem nauðsynlegt er að taka á eins og tekið hefur verið á lífeyrisskuldbindingum Þjóðleikhússins, og vonir standa til að hægt verði að ljúka farsællega málefnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.