Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:38:15 (599)

2003-10-15 14:38:15# 130. lþ. 11.4 fundur 102. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Þetta er ein af þeim fyrirspurnum sem þarf að hamra hér á ár eftir ár og það er auðvitað skömm að svo skuli þurfa að vera. Það er alkunna að lífeyrisskuldbindingar þessara stofnana hafa verið verulega íþyngjandi. Það er ástæðan fyrir því að nú er búið að létta þeim af Þjóðleikhúsinu og þess vegna spyr maður hvað dvelji orminn langa með að gera nákvæmlega það sama við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið. Hér er um sambærilegar stofnanir að ræða að því leytinu til að þetta eru menningarstofnanir í eigu íslensku þjóðarinnar og þannig vill þjóðin halda þeim. Ef hægt er að gera það sem gert hefur verið fyrir Þjóðleikhúsið, fyrir eina þeirra, sem ég fagna og tel auðvitað að hafi verið rétt skref, þá verður að vera hægt að gera það sama fyrir hinar tvær. Hvers vegna er svona miklu erfiðara að leiðrétta þetta mál Ríkisútvarpsins? Maður hefur á tilfinningunni að það sé vegna þess að Ríkisútvarpið njóti ekki sama meðbyrs hjá ríkisstjórninni og t.d. Þjóðleikhúsið, og ég fagna öllum meðbyr sem Þjóðleikhúsið nýtur. En það verður að vera þannig að ríkisstjórnin standi við bakið á menningarstofnunum sínum öllum jafnt og þetta eru þrjár öflugustu menningarstofnanir þjóðarinnar.