Niðurstaða ráðherranefndar um fátækt

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:48:41 (604)

2003-10-15 14:48:41# 130. lþ. 11.6 fundur 78. mál: #A niðurstaða ráðherranefndar um fátækt# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina.

Því er ekki að neita að á sl. kjörtímabili var ríkisstjórn Íslands í afneitun þegar fátækt bar á góma í hinu háa Alþingi, vísaði sífellt í meðaltöl og vildi ekki heyra á það minnst að fátækt á Íslandi fælist ekki síst í þeim mikla tekjumun sem er að myndast á milli ákveðinna hópa í samfélaginu. Eins og hefur komið fram vitum við hvaða hópar þetta eru, einstæðingar í röðum karlmanna og konur á lágum launum með börn á sínu framfæri. Þetta hafa rannsóknir Hörpu Njáls félagsfræðings og reynsla hjálparstofnana sýnt okkur mánuðum, missirum og árum saman og það er vonum seinna að ríkisstjórn og hæstv. félmrh. taki við sér í þessum efnum. En því miður verður að segjast eins og er að þau byrjuðu ekki vel þetta haustið, því þau ákveða að lækka atvinnuleysisbæturnar. Og hvar skyldi það nú koma verst niður, frú forseti?