Niðurstaða ráðherranefndar um fátækt

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:00:53 (613)

2003-10-15 15:00:53# 130. lþ. 11.6 fundur 78. mál: #A niðurstaða ráðherranefndar um fátækt# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég hef áður rakið í svari mínu stöðu mála hjá þeim hópi sem nú fjallar um stöðu fátækra á Íslandi og aðgerðir til úrbóta. En ég vek athygli hv. þingmanna á því að um það fjölluðu spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrst og fremst. Um niðurstöðu þess starfs get ég einfaldlega ekki tjáð mig þar sem þær liggja ekki fyrir. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur trúlega ekki heyrt það.

Hins vegar er það skoðun mín að brýnt sé að skilgreina eins vel og kostur er hverjir teljast fátækir hér á landi, með hvaða hætti þeim er rétt hjálparhönd og hvort ástæða er til að bregðast sérstaklega við.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, að öruggt húsnæði er meðal lífsnauðsynja barnafjölskyldna. Flutningur milli bæjarhluta getur haft slæmar afleiðingar á uppeldisaðstæður barna, flutningur úr einum skóla í annan hefur ævinlega í för með sér mikið rask og óöryggi fyrir börn. Ég tel að fyrirhugaðar aðgerðir í húsnæðismálum muni án efa koma þeim hópi sem hér um ræðir til góða.

Langtímafátækt er fylgifiskur langvarandi atvinnuleysis. Þrátt fyrir að hér á landi séu fáir atvinnulausir til lengri tíma þá fer sá hópur stækkandi. Það er rétt að gefa honum sérstakan gaum. Unnið er að því verkefni í félmrn., m.a. í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka að ég tel að við eigum að styðja vel við bakið á fátæku fólki á Íslandi. Sem betur fer þá tilheyrum við einni ríkustu þjóð veraldar. Um það erum við væntanlega öll sammála. Vissulega verður hinu háa Alþingi gerð grein fyrir niðurstöðum þess starfs sem hér um ræðir.