Fæðingarorlofssjóður

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:05:31 (615)

2003-10-15 15:05:31# 130. lþ. 11.7 fundur 80. mál: #A Fæðingarorlofssjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir spyr hvernig félmrh. hyggst bregðast við fjárþurrð Fæðingarorlofssjóðs og ég þakka henni fyrir að brydda upp á því málefni.

Málefni sjóðsins hafa verið til umræðu í félmrn. og raunar víðar upp á síðkastið. Í sumar fór fram allnokkur umræða um aukin útgjöld sjóðsins sem reynast langt umfram það sem ráð var fyrir gert þegar til hans var stofnað í upphafi. Ástæður þess að útgjöld sjóðsins eru umfram spár virðast einkum vera tvenns konar. Í fyrsta lagi eru mun fleiri, eins og kom fram í máli hv. þm., að nýta sér fæðingarorlof en ráð var gert fyrir í upphafi. Það eru einkum karlmenn sem nýta sér þennan rétt betur og í meiri mæli. Í öðru lagi reynast meðaltekjur, sem greiðslur í fæðingarorlofi byggja á, hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það er í sjálfu sér ánægjulegt að foreldrar skuli nýta sér í ríkum mæli þann rétt sem þeir eiga á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof. Það er einnig sérstakt ánægjuefni að karlmenn virðast nýta sér þennan rétt betur en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona. Það sýnir fyrst og fremst að lögin eru að skila miklum árangri í þá átt að jafna stöðu kynjanna með tilliti til umönnunar barna á fyrstu mánuðum lífs þeirra. Eins hafa lögin stuðlað að jafnari stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Um það erum við sammála.

Það er hins vegar staðreynd að þessi auknu útgjöld sjóðsins leiða að óbreyttu til þess að halli mun myndast á rekstri hans frá miðju ári 2005. Það er áhyggjuefni og ekki ráð nema í tíma sé tekið að huga að þeirri stöðu. Því setti ég strax í sumar af stað hóp fólks úr félmrn. og fjmrn. sem er m.a. ætlað að greina tölfræðilegar upplýsingar um sjóðinn í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins. Hópnum er líka ætlað að meta veikleika sem kunna að vera á framkvæmd laganna, svo sem varðandi eftirlit og áreiðanleika upplýsinga, og í því ljósi að meta þörf fyrir hugsanlegar breytingar á lögunum. Að endingu og ekki síst er starfshópnum ætlað að meta útgjöld og rekstur sjóðsins í ljósi reynslunnar og setja fram hugmyndir um leiðir til að styrkja fjárhagslega stöðu hans.

Ýmislegt kemur til greina í þessu sambandi sem ég ætla ekki að tíunda sérstaklega hér enda ekki tímabært. Við verðum þó að geta rætt þessi mál af hreinskilni. Undan því verður ekki vikist. Til dæmis þarf að skoða hvort og hvernig hægt er að breikka tekjustofn sjóðsins. Við þurfum að skoða hvort og þá hvernig hægt er að draga úr útgjöldum sjóðsins án þess að gengið sé of langt í þeim efnum. Til dæmis þarf að ræða áhrif þess að lækka að einhverju leyti það hlutfall af heildarlaunum sem greiðsla í orlofi byggir á. Slíka kosti sem og aðra verður að skoða og meta áhrif einstakra breytinga.

Þessi hópur á að skila tillögum sínum og greinargerð til félmrh. fyrir áramót. Í framhaldi af því munum við meta í samráði við aðila vinnumarkaðarins til hvaða úrræða verður gripið.

Ég legg ríka áherslu á að hafa gott samráð við þá aðila sem málið varðar, m.a. aðila vinnumarkaðarins. Hér er um þýðingarmikið hagsmunamál að ræða. Lögin hafa í öllum meginatriðum reynst vel og almenn ánægja ríkir með þau. Ég tel að við getum verið sammála um það. Það verður hins vegar að finna fjárhagslegar forsendur fyrir rekstri sjóðsins þegar til lengri tíma er litið. Hjá því verður ekki komist. En ég vænti þess að við munum ná samstöðu um þær nauðsynlegu breytingar sem kann að þurfa að ráðast í til að ná þeim markmiðum.