Hafrannsóknir á Svalbarða

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:23:41 (623)

2003-10-15 15:23:41# 130. lþ. 11.9 fundur 82. mál: #A hafrannsóknir á Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hæstv. sjútvrh. um það hvort Ísland hafi hagsmuni af því að vera með í hafrannsóknarverkefni sem er verið að koma á laggirnar í Nýja-Álasundi á Svalbarða. Margar þjóðir ætla að taka þátt í þessu verkefni eða samstarfi sem á að gefa aukna þekkingu á hafinu á norðursvæði og Norðurskauti.

Umræða um slíka rannsóknastofnun hefur staðið frá árinu 1996 og nú er vænst að hún standi tilbúin um mitt sumar 2005. Á þessum samstarfsvettvangi hefur verið unnið mjög vísindalega að undirbúningi að þessu samstarfi og þessari stofnun og forusta samstarfsins er á vegum Norsk Polarinstitutt. Það er norsk stofnun í norðursjávarrannsóknum. Upprunalega var þetta samstarf um rannsóknastofu að uppistöðu á vegum þeirra, Ítalíu, Japans, Þýskalands, Bandaríkjanna og háskólans á Svalbarða. Síðan hafa bæst við hafrannsóknastofnanir, t.d. í Skotlandi og Kóreu og stöðugt bætast fleiri við.

Um er að ræða alveg nýja möguleika á rannsóknum á vistfræði hafsins, lífeðlisfræði og lífefnafræði sem gefa von um aukna vísindalega þekkingu á haffræði, jarðfræði hafsins og hafísrannsóknum. Þetta verður nyrsta rannsóknastofnun í heimi og hún á jafnframt að verða sú aðgengilegasta í hafrannsóknum í okkar heimshluta, á norðurhveli.

Gert er ráð fyrir því að þessi rannsóknastofnun stundi tilraunir og opni möguleika á að stýra umhverfisþáttum eins og saltstyrk, hita, birtu og ljósi og opni vísindasamstarf þannig á breiðum grunni milli viðkomandi stofnana og þjóða. Að vísu var stofnuninni hrint í framkvæmd af fyrirtækinu Kings Bay í Nýja-Álasundi. En það er að uppistöðu í eigu Norsk Polarinstitutt sem er hin norska haffræðistofnun.

Mjög mikil áhersla er lögð á að uppbyggingin geti líka nýst öðrum notendum en þeim sem verða upphafsþátttakendur. Mér finnst þetta afar áhugavert verkefni og spyr því hæstv. sjútvrh. hvort við höfum hagsmuni af því að vera með á þessu sviði.