Hafrannsóknir á Svalbarða

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:26:52 (624)

2003-10-15 15:26:52# 130. lþ. 11.9 fundur 82. mál: #A hafrannsóknir á Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Hér er um að ræða mjög áhugavert efni sem við þurfum að gaumgæfa. Hins vegar er málið þannig vaxið að við höfum ekki átt neina aðild að því og hvergi nálægt því komið og vart hægt að segja að við höfum vitað um það fyrr en fyrirspurnin lá fyrir og engin gögn hafa borist okkur í ráðuneytinu frá þessum aðilum til kynningar eða boð um að taka þátt í þessu. Við leituðum reyndar til undirstofnana okkar sem ekki könnuðust heldur við þetta verkefni og til annarra ráðuneyta og stofnana sem ekki höfðu neinar upplýsingar um það heldur. Við höfðum þá auðvitað samband til Noregs og fengum um þetta upplýsingar og þær staðfestu, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér er um mjög áhugavert verkefni að ræða sem komið hefur verið af stað af hálfu þessara stofnana og um það stofnað þetta fyrirtæki sem hv. fyrirspyrjandi nefndi.

Gert er ráð fyrir því að ákvörðun um þetta málefni verði tekin í desember á þessu ári. Þess vegna er væntanlega of seint fyrir okkur að íhuga það að vera beinir aðilar að þessu. Hins vegar mun þessi rannsóknastöð vera þannig byggð upp að öðrum stofnunum en þeim sem eru beinir þátttakendur í þessu gefist möguleiki á að hafa þarna aðstöðu ef þær þess óska. Þar af leiðandi eru möguleikar fyrir okkur til þess að taka þátt í þessu samstarfi í framtíðinni jafnvel þótt við verðum ekki með í því að stofna þetta fyrirtæki eða þessa rannsóknastöð sem fyrirtækið ætlar að stofna.

Við höfum þegar gert ráðstafanir til þess að fá frekari upplýsingar og munum í byrjun næsta árs eiga fund með einum af forsvarsmönnum þessa fyrirtækis sem mun þá verða staddur hér á landi í tengslum við svipuð verkefni sem hér er verið að vinna. Ef ég dreg þetta saman þá tel ég þetta áhugavert fyrir okkur. Við þurfum að skoða hvaða möguleikar eru þarna fyrir rannsóknastofnanir okkar. Ekki hefur verið gert ráð fyrir því í áætlunum þeirra fram til þessa og verði það niðurstaðan að það sé áhugavert þá þurfum við að gera ráð fyrir því í þeim fjárhagsáætlunum sem stofnanirnar vinna eftir.