Hafrannsóknir á Svalbarða

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:30:49 (626)

2003-10-15 15:30:49# 130. lþ. 11.9 fundur 82. mál: #A hafrannsóknir á Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afar nauðsynlegt fyrir okkur að huga vel að rannsóknum á norðurslóðum þótt ekki væri vegna annars en þess að á undanförnum árum hefur hafsvæðið hér verið að hlýna og reyndar einnig upp með ströndum Noregs og það geta orðið miklar breytingar á lífríkinu í norðurhöfum á næstu árum.

Menn hafa lengi haldið því fram hér á Íslandsmiðum að þorskurinn væri í okkar fiskabúri innan lögsögunnar. Ég held að þetta sé mikill misskilningur og ef skilyrðin breytast þannig að norðurhafið hlýnar er ég næsta viss um að stór hluti af þorskstofnum okkar mun leita út fyrir lögsögu okkar, sérstaklega yfir sumartímann, og þar getur verið mikil hætta á því að aðrar þjóðir sæki í hann.

Ég hygg að það sé ekki seinna vænna fyrir okkur að reyna að tryggja okkur aðgang að því að fylgjast vel og vandlega með rannsóknum á norðurslóðum og ef þetta er vegferð til þess held ég að við ættum að huga vandlega að þessu máli.