Hafrannsóknir á Svalbarða

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:31:56 (627)

2003-10-15 15:31:56# 130. lþ. 11.9 fundur 82. mál: #A hafrannsóknir á Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Já, það kemur mér á óvart að það berist ekki vitneskja um svona merkilegt samstarf eins og ég kynntist þarna. Ég var í heimsókn á Svalbarða í sumar, eins og ég hef nefnt, og líka í Tromsö og það eru viðamiklar rannsóknir sem fara fram á norðurslóð, t.d. er Norsk Polarinstitutt sífellt að leita nýrra leiða til að fá vitneskju um hafið, um tegundirnar og um hafstraumana, og nú eru t.d. tilraunir uppi hjá þeim með að festa örsenda á sjávardýr til að fylgjast með hafstraumum og hita í hafinu. Þetta er tækni sem áður hefur verið notuð til að kynnast lífsháttum sjávardýra en nú á að nýta þessa nýju tækni til þess að mæla aðra hluti í umhverfinu í hafinu. Þetta hefur gríðarlegt gildi fyrir okkur.

Ég er fulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannasamstarfi um Norðurskautsmál og þar eru núna miklar umræður um rannsóknir og vísindastarf, um umhverfi og lífshætti og hvaða breytingar sem eru að verða í umhverfi okkar eru þess eðlis að þær hafi gífurleg áhrif á búsetu og annað. Þessar nýju rannsóknir sýna m.a., og það er skýrsla sem mun koma út á næsta ári, að umhverfisbreytingar sem verða hér á norðurslóð á 10 árum eru eins og umhverfisbreytingar sem verða annars staðar á jörðinni á 25 árum. Þetta segir okkur að hitabreyting í hafinu, breytingar í lofslagi sem hafa gífurlegar afleiðingar í för með sér, gerist hraðar hér og rannsóknirnar fá allar mikla þýðingu vegna þess að þar með er vitað hvað muni gerast á næstu 25 árum á öðrum stöðum.

Ég hvet ráðherrann til að skoða það að við, þessi þjóð, sem byggir allt á hafinu, verðum með í rannsókn af þessu tagi.