Stuðningur við kræklingaeldi

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:38:51 (630)

2003-10-15 15:38:51# 130. lþ. 11.10 fundur 107. mál: #A stuðningur við kræklingaeldi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Svar við fyrri spurningunni er svohljóðandi:

Í fyrsta lagi hefur Samtökum íslenskra kræklingaræktenda verið veittur styrkur að fjárhæð 1,5 millj. kr. til kaupa á vélbúnaði sem notaður er við uppskeru og forvinnslu kræklings.

Í öðru lagi fól ég AVS-verkefnisstjórninni að auglýsa fyrir hönd ráðuneytisins eftir umsóknum um styrki til uppbyggingar á kræklingaeldi og bárust nokkrar umsóknir. AVS-verkefnisstjórnin hefur ákveðið að mæla með að Samtökum íslenskra kræklingaræktenda verði veittur 3,5 millj. kr. styrkur til verkefna á sviði uppbyggingar kræklingaræktar á Íslandi. Ég geri ráð fyrir að ganga frá þessari afgreiðslu á næstu dögum.

Nánar skilgreint eru markmiðin eftirfarandi:

Uppbygging kræklingaræktar á Íslandi og að ná tökum á uppskeru og vinnslu kræklings sem ræktaður er við Íslandsstrendur. Nánari útfærsla verkefnisins er:

að hanna ræktunar-, uppskeru- og vinnslubúnað sem henta íslenskum aðstæðum og ná tökum á meðhöndlun söluafurða á leið frá ræktun á markað,

að gera endurbætur á uppskeruvél, tilraunir með ýmsar gerðir safnara, líftími sökka, vigtun og sundurliðun og ásætun.

Þá er áætlað að meta afföll skelja við vinnslu og vatnstap sem og að leggja mat á heppilegar pakkningar.

Svar við síðari spurningunni er að laga- og reglugerðarramminn um kræklingaeldi er hinn sami og um annað eldi sjávardýra. Er þar átt við lög nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, og reglugerð nr. 238/2003, með síðari breytingum, sem sett er við þau lög. Stuðningur við kræklingaeldi lýtur á sama hátt sambærilegum vinnureglum innan sjávarútvegsins og annað eldi sjávardýra. Þar er átt við stefnumótun og tillögur að fjárstuðningi sem fer fram innan fiskeldishóps AVS-verkefnisins auk þess samræmingarhlutverks sem er á hendi fiskeldisnefndar, sbr. 4. gr. áðurnefndra laga og samhljóða ákvæði í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

Ráðuneytið hefur jafnframt leitast við að setja sig sérstaklega inn í málefni kræklingaræktarinnar og mun fylgjast með uppbyggingu atvinnugreinarinnar áfram sem hingað til.