Stuðningur við kræklingaeldi

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:41:09 (631)

2003-10-15 15:41:09# 130. lþ. 11.10 fundur 107. mál: #A stuðningur við kræklingaeldi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að koma með þessa þörfu fsp.

Fiskeldisrannsóknir á Íslandi hafa lengi verið í lamasessi og þær eru það enn þá, því miður, það er bara staðreynd.

Ég lýsi eiginlega hálfgerðri undrun yfir því að hæstv. sjútvrh. skuli vera hérna til svara því að ég veit ekki betur en að kræklingaræktin heyri undir landbrn. Svo er a.m.k. að sjá á vefnum þar sem kræklingaverkefnið svokallaða er hýst undir vefsíðum Veiðimálastofnunar.

En nóg um það. Ég vil fá að vitna aðeins í ágæta ársskýrslu frá þessu kræklingaverkefni þar sem fram kemur að sýnatökum varðandi kræklingaeldi hefur verið verulega ábótavant. Við vitum lítið um vöxt og viðgang kræklings, við vitum ekkert um hugsanlega þörungaeitrun, sem hefur verið mikið vandamál í löndunum umhverfis okkur, við vitum lítið, því miður allt of lítið, um hagkvæmni kræklingaeldis. Það má vel vera að það sé hagkvæmt og ég vona svo sannarlega að það sé rétt því að hér gæti reynst um góða búbót að ræða fyrir sjávarbyggðir þessa lands.

En kjarninn er sá að rannsóknum er allt of lítið sinnt hér á landi.