Vinnsla kalkþörungasets

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:55:48 (638)

2003-10-15 15:55:48# 130. lþ. 11.12 fundur 126. mál: #A vinnsla kalkþörungasets# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur spurt um mál sem er gríðarlega þýðingarmikið fyrir þær byggðir sem eiga í hlut og höfðu bundið vonir við að vinnsla á kalkþörungaseti gæti orðið til atvinnuuppbyggingar. Það er dapurt að þeir samningar sem búist hafði verið við að ná við kalkþörungavinnsluna í Arnarfirði skyldu síðan renna út í sandinn.

Ég vil fagna þeim undirtektum hjá hæstv. iðnrh. að Fjárfestingarstofunni, sem er á vegum iðnrn. og hefur þar verið að liðsinna við fyrst og fremst stóriðjuframkvæmdir, verði beitt til þess að koma þessum verkefnum bæði í Húnaflóanum hjá íbúum Húnaþings vestra og einnig við Arnarfjörð.

Ég vil líka benda á að á fjárlagalið iðnrn. er undirliður sem heitir Iðnaðarrannsóknir og stóriðja með nokkrar milljónir króna og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita stofnunum sínum til þess að koma til aðstoðar við að vinna markað og samninga.