Vinnsla kalkþörungasets

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:57:14 (639)

2003-10-15 15:57:14# 130. lþ. 11.12 fundur 126. mál: #A vinnsla kalkþörungasets# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf og er ég út af fyrir sig mjög ---

(Forseti (SP): Hæstvirtum.)

hæstvirtum --- hress með að könnun skuli vera farin af stað á því að nota Fjárfestingarstofuna til að finna aðra samstarfsaðila. Ég vonast vissulega til þess að það leiði til einhvers og leiði til þeirrar niðurstöðu að hægt verði að hefja þessa vinnslu. Auðvitað er ekki gott að vera að gefa neinar falskar vonir, en ég tel að þetta verkefni verði ekki sett í gang nema alveg skýlaust ákveðinn samstarfsaðili finnist. Ég tel að við getum ekki farið inn í þennan rekstur öðruvísi en að hafa samstarfsaðila sem hefur þekkingu á markaðnum og þekkingu á því að markaðssetja slíka vöru.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sú vinna skuli hafa farið af stað og leyfið er tilbúið, þannig að það ætti svo sem ekkert að vera því til fyrirstöðu.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að hér er verið að tala um að það geti verið 16--18 störf sem skapist við þessa framleiðslu og að gert er ráð fyrir að íbúafjölgun gæti orðið sem næmi 30--40 manns í byggðarlaginu ef þetta verkefni kæmist á koppinn. Það er því eftir miklu að slægjast og fyrir það svæði sem hefur staðið veikt á undanförnum árum, sunnanverða Vestfirði, gæti þetta skipt verulega miklu máli að þar yrði ákveðinn viðsnúningur í viðhorfum fólks til framtíðar sinnar.

Ég fagna því ef þetta er komið á veg og vona svo sannarlega að ekki verði gefið eftir í því að reyna að finna samstarfsaðila sem tekur þetta verkefni að sér. Það má jafnvel reyna þetta með beinu útboði þar sem fyrirtækið vill taka að sér þessa nýtingu fyrir ákveðið verð eða ákveðna aðlögun.