Vinnsla kalkþörungasets

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:59:18 (640)

2003-10-15 15:59:18# 130. lþ. 11.12 fundur 126. mál: #A vinnsla kalkþörungasets# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það að við munum ekki draga af okkur í iðnrn. í þessu máli því þetta er eitt af þeim málum sem ég batt mjög miklar vonir við í sambandi við suðurfirðina og því voru það gífurleg vonbrigði þegar snurða hljóp á þráðinn. Hins vegar er rétt að hafa í huga að Írarnir eru svo sem ekki hættir við og ég veit að þeir eru væntanlegir hingað eftir nokkrar vikur til þess að fara yfir málið. En engu að síður töldum við rétt að beita þeim stofnunum sem við eigum yfir að ráða til að reyna að leita að öðrum samstarfsaðila og þannig stendur málið á þessari stundu.

Mig langar aðeins til að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að ég hafi sagt að tilflutningur á kvóta hafi ekki haft áhrif á búsetu fólks. Ég held ég hafi nú ekki tekið svo mikið upp í mig, ég kannast ekki við það. En ég sagði hins vegar að samkvæmt skýrslum sem liggja fyrir hafi tilflutningur á aflaheimildum haft minni áhrif á flutning fólks á milli svæða en haldið hafi verið fram. Og þetta er í sjálfu sér mál sem hægt er að deila um. En þær skýrslur hafa alla vega komist að þeirri niðurstöðu, eða skýrsluhöfundar, og það eru fleiri en ein og fleiri en tvær skýrslur sem segja þetta. En það er nú ekki aðalatriðið.

Ég vil líka taka fram af því kræklingaræktin kom til umræðu, að það er mál sem ég hef reynt að sýna áhuga og styrkja í litlum mæli þó, en mér finnst að það sé atvinnugrein sem eigi rétt á sér og geti vonandi eflst því hún getur skipt máli fyrir nokkra smáa staði eða smá byggðarlög á landsbyggðinni.