Barnalög

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:36:38 (645)

2003-10-16 10:36:38# 130. lþ. 12.8 fundur 152. mál: #A barnalög# (lagaskil) frv. 115/2003, Frsm. BjarnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:36]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. frá allshn. um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er lagt til að í stað dagsetningarinnar ,,1. janúar 2003`` hvarvetna í 81. gr. laganna komi: 1. nóvember 2003.

Þannig er að þegar frv. til nýrra barnalaga var samþykkt á 128. löggjafarþingi láðist að breyta dagsetningum í 81. gr. frv. sem fjallar um lagaskil til samræmis við gildistöku\-ákvæði frv. sem var breytt í meðförum allshn. úr 1. janúar 2003 í 1. nóvember 2003. Þessu frv. er ætlað að samræma lagaskilaákvæði og gildistökuákvæði laganna áður en lögin taka gildi 1. nóvember nk. Þetta ósamræmi hefur m.a. þá þýðingu að þrátt fyrir að gildistökuákvæði laganna kveði á um að lögin skuli taka gildi eins og áður hefur komið fram 1. nóvember nk., þá segir í 81. gr. laganna, sem fjallar um lagaskil, að lögunum skuli beitt um dómsmál skv. II., III. og VI. kafla laganna sem hafi verið þingfest eftir 1. janúar 2003. Þetta er mjög óheppilegt ósamræmi.

Allshn. leggur fram þetta frv. og hefur fjallað um það og mælist til þess að frv. verði samþykkt. Ég geri það að minni tillögu að málinu verði ekki vísað til nefndarinnar þar sem nefndin leggur frv. fram og hefur þegar fjallað um það.