Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:45:40 (648)

2003-10-16 10:45:40# 130. lþ. 12.9 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að meðan ekki er leitað annarra fjármögnunarleiða fyrir Háskóla Íslands að ríkisstjórnin komi fram með frv. af þessu tagi um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og óski eftir því að framlengja þann tíma sem veittur er til einkaleyfis á að reka happdrætti. Það hlýtur hins vegar að vera umhugsunarefni að enn árið 2003 skuli þessa æðsta menntastofnun þjóðarinnar þurfa að byggja í svo ríkum mæli á áhuga fólks á að spila með fé. Ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh. í upphafi máls míns hvort ríkisstjórnin hafi ekki rætt það að háskólinn fái fjármagn til uppbyggingar eftir öðrum leiðum en þessari.

Fyrr á árum var öðruvísi litið á happdrætti. Fólk átti miða í Happdrætti Háskóla Íslands. Það átti e.t.v. miða í Vöruhappdrætti SÍBS eða miða í Happdrætti DAS allt eftir því við hvaða gott framtak og góða starfsemi það vildi styðja. Fólk mundi númerin sín, þótti vænt um þau og átti þessa miða árum saman, miðann sinn eða miðana sína. Þetta var fyrr á árum meðan þetta mál var tiltölulega saklaust og enginn tengdi það við spilafíkn að eiga miða í Happdrætti Háskólans.

En fyrir nokkrum árum voru sett ný lög um spilakassa og Happdrætti Háskólans rekur slíka í talsvert miklu umfangi. Þegar þeir sem hafa leyfi til að reka spilakassana hafa verið spurðir um það á liðnum árum hve miklar tekjur komi í gegnum spilakassana þá hefur komið í ljós að það eru mjög miklir peningar. Það eru mjög miklir peningar sem renna til háskólans og hafa gert honum kleift að standa í mikilvægum byggingarframkvæmdum og tækjakaupum sem nauðsynleg eru.

En það er önnur hlið á þessu máli. Þegar lögin sem heimiluðu rekstur spilakassa voru í undirbúningi spunnust miklar deilur. Það spunnust deilur um hvort það ætti að heimila þessum tilteknu aðilum sem þá voru tilgreindir í frv. að reka spilakassa. Það voru deilendur í málinu og þeir sameinuðust þegar hver um sig hafði fengið sinn hlut þannig að deilendur sameinuðust um að fá að reka þessa spilakassa og vera tilgreindir í lögunum.

Menn höfðu áhyggjur þegar þessi lög voru sett. Sumir sáu fyrir sér að þarna væri verið að skapa alveg nýtt umhverfi sem gæti borið hættuna með sér. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða, virðulegi forseti, að enginn hafi samt séð það fyrir sem síðan hefur gerst vegna þess að spilakassarnir og spilafíknin sem hefur blómstrað með þeim hafa lagt heimili margra fjölskyldna í rúst.

Við komum alltaf að þessu með frelsið, frelsið til þess nota peningana sína með tilteknum hætti, þ.e. fólk eigi að sjá fótum sínum forráð, að það sé fólkinu sjálfu að kenna ef það fari með alla matarpeningana í spilakassa og eyði þeim á þrem dögum og síðan sé ekkert eftir til að kaupa mat fyrir fjölskylduna. Það er ekki spilakössunum að kenna. Það er ekki löggjafanum að kenna sem heimilaði þá. Það er því að kenna að menn sjá ekki fótum sínum forráð.

En þetta er ekki svona einfalt. Umræðan hefur verið mjög hörð um spilakassana og um spilafíknina. Bæði Háskóli Íslands eða hinir sem hafa leyfi til að reka spilakassa fá gífurlegar tekjur. Við sjáum það og hugsum: En gott að háskólinn skuli geta byggt meira. Það er alveg frábært að háskólinn skuli geta keypt tæki. En þessi fjárhæð birtist í svörum, m.a. þeim svörum sem ég hef beðið um þegar ég hef spurt á liðnum árum: Hvað hafa spilakassarnir verið að skila miklum tekjum? Það eru óhugnanlegar fjárhæðir sem hafa runnið úr vösum landsmanna í þessa spilakassa.

Ég get ekki annað, virðulegi forseti, en bent á það gífurlega vandamál sem hefur þróast við hliðina á þessari nýju heimild um happdrætti. Við erum ekki lengur að framlengja heimild fyrir Happdrætti Háskóla Íslands --- ég lít alla vega svo á að heimildin fyrir Námunni sé inni í þessu --- heldur erum við að gefa áframhaldandi heimild til reksturs spilakassanna og þess sem hér er gert að umtalsefni. Þess vegna spyr ég og endurtek spurninguna til hæstv. menntmrh.: Hefur það verið skoðað að þessi virðulega menntastofnun fái aðra tekjustofna en þetta sem hingað til hefur staðið undir svo mikilvægum þáttum? Um þetta spyr ég í ljósi þess hversu alvarlegir hlutir liggja þarna á bak við.