Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:02:10 (651)

2003-10-16 11:02:10# 130. lþ. 12.9 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið til að biðja hæstv. dómsmrh. velvirðingar á að ég skuli ítrekað hafa ávarpað hann sem menntmrh. Það ætti að vera sumum áhyggjuefni en hann getur nokkuð vel við unað að vera svo sterkt tengdur við menntamálin.

Þessi orðaskipti gefa mér tilefni til að endurtaka enn á ný fyrirspurn mína um tekjurnar af spilakössunum. Þessi mál hafa verið rædd af mikilli yfirvegun og alger óþarfi að vera með æsing út af þeim. Þetta er mál sem við eigum að ræða og eðlilegt að sú umræða komi upp undir þessu frv. um fjármögnun til Háskóla Íslands. Ég geri mér alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er mjög erfitt að banna kassana þegar málin eru komin á það stig sem nú er. Það er miklu erfiðara að snúa til baka en verið hefði ef byrjað hefði verið með afmarkaðri hætti.

Nú er mikilvægast að leita leiða til að stemma stigu við aðgengi barna og unglinga að spilakössum. Þar er ekki nóg að gert. Það þarf öfluga fræðslu og meðferðarúrræði þegar skaðinn er skeður. En við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að mjög mörgum finnst óviðkunnanlegt að háskólinn þurfi að treysta svo mjög á tekjur af spilakössum og af happdrætti. Varðandi það hvað eigi að koma í staðinn þá ráðlegg ég hæstv. dómsmrh. að leggja til í ríkisstjórn að skoðað verði hvar ríkisháskólar í nágrannalöndunum fá fjármagn til uppbyggingar og reksturs.