Talnagetraunir

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:14:27 (655)

2003-10-16 11:14:27# 130. lþ. 12.10 fundur 141. mál: #A talnagetraunir# (framlenging rekstrarleyfis) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til laga um breyting á lögum um talnagetraunir. Breytingin sem hæstv. dómsmrh. leggur til lýtur að því að nafnið Íþróttasamband Íslands breytist í Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.

Nú er kannski eðlilegt að þingmenn sem hafa áhuga á þessum málum varpi fram þeim spurningum hvort eðlilegt væri að allshn. færi að öðru leyti ofan í þessi lög. Það er alkunna að menn hafa rætt það vítt og breitt hvort rétt sé að skipting þess fjár sem kemur inn í gegnum talnagetraunir sé ævinlega sú sem lögin gera ráð fyrir.

Nú er það víða þannig í nágrannalöndum okkar að menningarstarfsemi ýmiss konar hefur fengið stuðning í gegnum lottóvélar og talnagetraunir. Það væri kannski hægt að hugsa sér að allshn. tæki til skoðunar í umfjöllun um málið, þar sem lögin eru opin, hvort tímabært sé að hugleiða slíkt hjá okkur.

Annað málefni dettur mér í hug, herra forseti, sem menn hafa hugleitt að láta talnagetraunirnar veita fjármagn til, þ.e. ungmenna- og æskulýðsmál. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær var rætt við hæstv. menntmrh. um að virkileg þörf væri á úrbótum og ákveðnu jafnræði milli greina í tómstundageiranum, ef svo má að orði komast. Aðstaða barna til að stunda íþróttir ýmiss konar er víða mjög mikil. Þar er gífurlegt framboð og er það vel. Íþróttafélög vítt og breitt um landið geta, að hluta til fyrir stuðning gegnum talnagetraunirnar, rekið mjög öfluga starfsemi og boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir börn og ungmenni í íþróttum. Hins vegar vaknar spurningin um hvers þau börn eiga að gjalda sem hafa ekki kosið sér þann lífsstíl að verja tómstundum sínum í íþróttastarf.

Ég tek það fram, herra forseti, að ég lasta sannarlega ekki íþróttastarfið. Ég hampa því hvar sem ég á þess kost. En það breytir því ekki að börn og unglingar hafa mismunandi áhugasvið og sum börn og sumir unglingar hafa ekki áhuga á að starfa í íþróttum en hafa mjög mikinn áhuga og mikla hæfileika til að starfa í listum, t.d. tónlist eins og alkunna er. Það er spurning hvort þau börn eigi ekki að fá að hafa jafnfjölbreytt tækifæri og hin sem geta stundað öfluga íþróttastarfsemi hjá öflugum íþróttafélögum. Ég held að hér sé tækifæri til að ræða málin í víðara samhengi en þetta frv. gefur tilefni til. Ég hvet hv. allshn. til að skoða það þegar málið kemur til hennar.