Mannréttindasáttmáli Evrópu

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:28:39 (659)

2003-10-16 11:28:39# 130. lþ. 12.11 fundur 142. mál: #A mannréttindasáttmáli Evrópu# (13. samningsviðauki) frv., ISG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Hér er merkilegt mál á ferðinni sem felur í sér að Íslendingar taka í lög samningsviðauka 13 í mannréttindasáttmála Evrópu sem felur í sér afnám dauðarefsinga í öllum tilvikum. Með þessu er viðurkennt með afgerandi hætti að allir menn eigi rétt til lífs og að sá réttur sé undirstaða í lýðræðisþjóðfélagi.

Þetta er í sjálfu sér ekki alls staðar viðurkennt, ekki heldur í ríkjum sem kenna sig við lýðræði og er auðvitað nærtækast í því sambandi að líta til Bandaríkjanna því að óvíða eru fleiri teknir af lífi samkvæmt dómi og lögum en þar, nema ef vera kynni í Kína sem er nú kannski ekki hægt að kenna við lýðræðið og er þar af leiðandi ólíkt farið en í Bandaríkjunum.

[11:30]

Eins og hér hefur komið fram í máli hæstv. dómsmrh. breytir þessi samningsviðauki ekki íslenskum lögum. Það hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá 1928 að dauðarefsingar væru ekki heimilar. En með þessu er ákvæðið samt styrkt og með því að taka upp þennan samningsviðauka eru Íslendingar að sýna samstöðu á alþjóðlegum vettvangi.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Eins og ég sagði tel ég að þetta sé hið merkasta mál en ég vildi hins vegar vekja athygli á því að núna, á þessu ári, er mannréttindasáttmáli Evrópu 50 ára og mér fannst nokkuð merkilegt að lesa ræðu hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar sem hann flutti á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands af því tilefni nýverið. Mér fannst eins og ráðherrann legði lykkju á leið sína í þessu ávarpi sem er haldið af þessu merka tilefni til þess að agnúast út í Mannréttindadómstólinn og þá dómara sem færu að niðurstöðum Mannréttindadómstólsins í túlkunum sínum á íslenskum lögum. Mér fannst dálítið sérkennilegt af ráðherranum að gera þetta að aðalinntaki ræðu sinnar í stað þess að ræða mannréttindi almennt og mikilvægi þeirra.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að a.m.k. í tvígang hefur það gerst hér að fallið hafa dómar í Hæstarétti þar sem menn hafa túlkað lög með öðrum hætti en ríkisstjórninni hefur verið þóknanlegt þar sem einmitt hefur reynt á mannréttindaákvæði sem Íslendingar hafa gert að sínum. Það er bæði í öryrkjadómnum svokallaða og eins í Valdimarsdómnum sem svo hefur verið kallaður.

Ég vek athygli á því að ekki eru öll kurl komin til grafar í þeim málum, sérstaklega ekki hvað varðar öryrkjamálin. Mér skilst að einmitt í dag verði kveðinn upp dómur í Hæstarétti í því máli og þá fáum við að vita hvort lögin sem Alþingi stóð að 2001 í kjölfar hæstaréttardóms í öryrkjamálinu svokallaða standist stjórnarskrána eða ekki. Ég vil í því sambandi minna á orð sem hér féllu í þeirri umræðu af hálfu hæstv. utanrrh. Hann sagði að ef niðurstaðan yrði sú að það frv. sem þá yrði að lögum stæðist ekki stjórnarskrá, virðulegi forseti: ,,... held ég að ljóst sé að ekki bara einn ráðherra þyrfti að segja af sér, ég held að þá þyrftu ansi margir ráðherrar að segja af sér og trúlega öll ríkisstjórnin, ef ríkisstjórnin verður uppvís að því að hún ætli sér vísvitandi að halda áfram að brjóta stjórnarskrá og vísvitandi ætli ríkisstjórnin sér ekki að uppfylla dóm Hæstaréttar``.

Þetta sagði hæstv. utanrrh. í umræðu um þetta mál hér á Alþingi í janúar 2001 og í dag mun væntanlega reyna á hvort þetta verður að veruleika eða ekki.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að ef lesið er upp prentað mál skal biðja leyfis forseta.)