Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:52:22 (662)

2003-10-16 11:52:22# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög brýnt og tímabært mál sem Samfylkingin flytur undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Eins og segir í tillögunni er hér gert ráð fyrir að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa framkvæmdaáætlanir til sex ára með því markmiði að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við gildandi jafnréttislög. Gert er ráð fyrir að áætlanirnar taki til opinbera vinnumarkaðarins og einnig hins almenna.

Það hefur áður komið fram í umræðum á hinu háa Alþingi að mikið skorti á að vinnumarkaðsrannsóknir hins opinbera séu með þeim hætti að við höfum í höndunum þau tól og tæki, þær staðreyndir, þær upplýsingar sem við þurfum til þess að hægt sé að ganga á hólm við launamun kynjanna. Þetta kom m.a. fram í umræðum á síðasta þingi við hæstv. fjmrh. Það hefur staðið til í nokkur ár að rannsaka launamuninn og uppbyggingu launa hjá hinu opinbera, en þegar til hefur tekið hefur vantað tölfræðileg gögn til þess að þær rannsóknir geti í raun farið fram og til þess að þær nái því markmiði að vera tæki til þess að vinna gegn launamuninum. Það bjátar mikið á en það er hins vegar hægt að laga þetta ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Slíkar rannsóknir eru stundaðar í nágrannalöndum okkar og ef vilji er fyrir hendi er minnsta mál að kyngreina breytur og upplýsingar um íslenskan vinnumarkað, eins og þörf er á, og greina hann með öðrum hætti þannig að Hagstofa Íslands geti veitt hinu opinbera nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að gera áætlanir sem vinna gegn launamun kynjanna. En rannsóknunum er því miður ábótavant og það er brýnt að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar taki á því máli.

Ekki gerist þetta af sjálfu sér, herra forseti, það vitum við sem höfum staðið í launabaráttu árum saman. Mér varð hugsað til kosningabaráttunnar vorið 1995 þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir þáltill. Þá var viðkvæðið ,,viðhorfsbreyting``, að allt mundi nú lagast af því að það væri alveg að skella á mikil viðhorfsbreyting í samfélaginu. Hæstv. forsrh. fór þar fremstur í flokki. Það var nýkomin út launakönnun, samanburðarkönnun milli Norðurlandanna sem vakti mikla athygli, og sá ágæti maður hélt því fram að viðhorfsbreytingin væri u.þ.b. að eiga sér stað á Íslandi.

Við stöndum hér átta árum síðar og því miður hefur viðhorfsbreytingin ekki orðið nema að mjög litlu leyti. Hún hefur þokast í rétta átt en enn er launamunur kynjanna og launabil kynjanna með öllu óviðunandi hér á landi. Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að viðhorfsbreytingin ein og sér verður ekki. Launajafnrétti er hápólitískt mál og á því misrétti verður aðeins unnið með pólitískum vilja, aðgerðaráætlunum eins og þeim sem hér er lagt til að gera, og skýrum markmiðum um það að stjórnvöld vilji minnka launamun kynjanna.

Í kosningabaráttunni í vor var fagurgalinn mikill í þessari umræðu. Þá kom hver á fætur öðrum, frambjóðendur stjórnmálaflokkanna, og sögðu á opinberum vettvangi að launamisréttið væri mál málanna í jafnréttisbaráttunni í dag. Fæstir þessara ágætu frambjóðenda eru í salnum í dag, hæstv. forseti, en vonandi munu þeir leggja Samfylkingunni lið við að fá þessa tillögu samþykkta á hinu háa Alþingi og að hrinda þessu brýna þjóðþrifamáli í framkvæmd. Vilji þeirra var ljós úr öllum flokkum í vor, herra forseti, og ég á ekki von á því að það hafi breyst mikið þó að einhverjir mánuðir séu liðnir.

Það er annað sem þarf líka að taka á og ræða í þessu sambandi og það er launaleyndin. Það er vitað að launaleyndin kemur konum verst, launaleyndin er beinlínis, að því er virðist, notuð gegn konum á vinnumarkaði. Ég hygg að það eitt að svipta leyndarhulunni af launagreiðslum almennt, hvort sem það er hjá hinu opinbera eða úti á hinum almenna vinnumarkði, gæti leiðrétt ýmislegt, ekki síst sporslurnar og aukagreiðslurnar sem við vitum, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á, að fara að stærstum hluta til karla á vinnumarkaði.

Svo má líka bæta því við í þessa umræðu að það hefur verið fróðlegt að sjá hvernig greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóði, sem var reyndar ræddur hér í vikunni við önnur tækifæri hér á hinu háa Alþingi, hvernig greiðslurnar til karla og kvenna úr Fæðingarorlofssjóði afhjúpa í raun og veru launastrúktúrinn og misréttið á íslenskum vinnumarkaði. Það er kannski aukaverkan þess ágæta sjóðs að sýna það svart á hvítu hvað konur fá í laun og hvað karlar fá í laun. Það ber að þakka en hins vegar er það býsna löng leið að fara til þess að fá þær upplýsingar sem ættu í raun að liggja fyrir vandræðalaust.

Rétt að lokum, hæstv. forseti, vil ég benda á að árangri er hægt að ná með pólitískum vilja. Því trúum við í Samfylkingunni og að því viljum við vinna. Við höfum dæmin fyrir framan okkur, við höfum glæsilegan árangur Reykjavíkurborgar undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Með það að leiðarljósi getum við á hinu háa Alþingi unnið að því að afnema launamisréttið sem ríkir á milli karla og kvenna á Íslandi.