Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:39:40 (674)

2003-10-16 12:39:40# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í þessari umræðu er venjulega mikið gert úr öryggishlutverki Ríkisútvarpsins gagnvart almenningi. Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi þess að almenningur hafi aðgang að viðtækjum þegar vá er fyrir dyrum en að mínu mati er alveg hægt að tryggja þann öryggisventil sem menn telja nauðsynlegan öðruvísi en með rekstri ríkisútvarps. Við úthlutun útvarpsleyfa er t.d. einfaldlega hægt að setja það skilyrði að þeir aðilar sem nauðsynlega þurfa að koma skilaboðum á framfæri komist inn í dreifingarkerfið þegar þurfa þykir.

Ég minnist tveggja dæma sem við þekkjum þar sem einkaaðilar urðu fyrri til en Ríkisútvarpið að flytja fréttirnar þegar aðstæður urðu krítískar. Ég nefni jarðskjálftana á Suðurlandi árið 2000 þegar aðrar fréttastofur en fréttastofa ríkissjónvarpsins urðu fyrr á staðinn og voru fljótari til þess að flytja landsmönnum fréttir af þeim atburðum. Það sama má segja, ef ég man rétt og ég held að ég geri það, um snjóflóðið hörmulega sem féll á Flateyri 1995. Ég bendi bara á þessi tvö dæmi máli mínu til stuðnings um að það eru fleiri aðilar en ríkið sem geta virkað sem öryggistæki gagnvart almenningi.

En ég var fyrst og fremst að benda á að ég tek ekki undir það að það sé ríkið eitt og sér sem geti sinnt því hlutverki sem lýst er fyrst og fremst í upphafi greinargerðar þáltill.