Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:52:39 (677)

2003-10-16 12:52:39# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:52]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom upp og talaði máli þjóðarinnar og flestra þingmanna, að eigin sögn. Ég hygg nú að hann hafi fyrst og fremst talað fyrir sjálfan sig í þessu máli. Mig langar að víkja þó að einu atriði sem hann nefndi. Hann sagði að Ríkisútvarpið hefði verið fært í fjárhagslega spennitreyju.

Nú hefur Ríkisútvarpið mjög mikla meðgjöf umfram aðra fjölmiðla sem eru í rekstri á Íslandi. Ríkisútvarpið innheimtir afnotagjöld og allir Íslendingar sem eiga sjónvarp eða útvarp eru skyldaðir til þess að greiða þau. Og það sem meira er, Ríkisútvarpið hefur lögveð í viðtækjum þeirra sem ekki greiða. Ríkisútvarpið selur auglýsingar til birtingar á öllum sínum miðlum og hefur bætt mjög í þann þátt í rekstri sínum. Þar að auki hefur Ríkisútvarpið verið rekið með halla sem síðan er greiddur af skattgreiðendum og ríkissjóði.

Ég get því ekki séð, þegar einu fyrirtæki á markaðnum eru sköpuð slík rekstrarskilyrði að fá að innheimta afnotagjöld, selja auglýsingar og komast upp með að reka fyrirtækið með halla sem síðan er greiddur upp af skattgreiðendum, að slíkt fyrirtæki hafi verið fært í fjárhagslega spennitreyju. Hvað þá með hina fjölmiðlana sem starfa á markaðnum?