Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:56:55 (679)

2003-10-16 12:56:55# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:56]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason lýsti því að Ríkisútvarpinu hefði verið att út auglýsingasölumarkaðinn og út í kostun á dagskrárliðum í þessu tali um fjárhagslega spennitreyju Ríkisútvarpsins.

Ég held að þessi umræða sé góð og þáltill. að mörgu leyti. Það er margt í henni sem ég get tekið undir eins og ég sagði strax í upphafi. En ég held að við gætum líka tekið til umræðu á hvaða leið Ríkisútvarpið er. Menn geta verið sammála um að Ríkisútvarpið eigi að vera flaggskip íslenskrar menningar og tungu. Ég get ekki séð af stórum hluta þeirrar dagskrár sem það t.d. býður upp á að það sé að sinna þessu hlutverki sínu. Við vitum að stór hluti dagskrárinnar eru sýningar á bandarískum þáttum eins og Sex and the City, Sopranos og fleiri afþreyingarþáttum. Eitthvað af fjármunum Ríkisútvarpsins fer í kaup á þessum dagskrárliðum og það er kannski þess vegna sem þessi stofnun er rekin með svo miklu tapi að hún er að sinna hlutverki sem hún á alls ekkert að vera í, þ.e. samkeppni við einkastöðvarnar.

Auðvitað kemur þetta ekki bara niður á starfsmönnum annarra fjölmiðla heldur líka rekstri þeirra. Það sem ég er að segja er að vera Ríkissjónvarpsins á þessum markaði og ríkisins á fjölmiðlamarkaði hefur áhrif og --- það er rétt --- á starfsmenn annarra fjölmiðla en kemur líka niður á rekstri annarra fjölmiðla í landinu. Það er alveg sama hvort um er að ræða ljósvakamiðla eða prentmiðla. Ég get því alveg tekið undir það að nauðsynlegt er hinu háa Alþingi að taka málefni ríkisins á fjölmiðlamarkaði til nánari umfjöllunar. En ég vildi bara að þetta kæmi fram í þessari umræðu um meinta fjárhagslega spennitreyju Ríkisútvarpsins.