Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:59:09 (680)

2003-10-16 12:59:09# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Hver veit nema hið ótrúlegasta geti gerst, þ.e. að ég og hv. 10. þm. Reykv. n. getum náð einhvers konar samstöðu í málefnum Ríkisútvarpsins. Ég veit að ræðutími hans er liðinn og hann getur ekki gert það núna. En þá verður hann auðvitað að gera það upp við sig hvort hann vill ríkisútvarp eða ekki. Mér hefur heyrst að hann sé svona á síðari skoðuninni í því.

Við erum sammála um að Ríkisútvarpið eigi að hafa sérstöðu í íslenskri fjölmiðlun, til þess sé það til, og það eigi að sinna því hlutverki fyrst og fremst og ekki öðrum hlutverkum, þó að ég sé svo sem ekki og vilji alls ekki að þátturinn Sopranos --- af sérstökum ástæðum sem geta þess vegna varðað hv. þm. sem hér talaði áðan --- eða Sex and the City verði teknir sérstaklega af dagskránni. En Ríkisútvarpið er í vanda. Það stendur sig vel að sjálfsögðu frá degi til dags. Það er í vanda. Það er í rekstrarlegum vanda sem við vitum um og hefur verið hér til umræðu tvisvar eða þrisvar á þeim stutta tíma síðan þingið kom saman. Það er í skipulagslegum vanda. Það hefur ekkert gerst þarna í skipulagi sem þarf að gerast og þessi tillaga tekur að vissu leyti á því.

Það er líka í stjórnunarlegum vanda sem því miður blandast pólitík og sú pólitík og sá stjórnunarvandi kemur ágætlega fram í frétt af tölvupósti útvarpsstjórans sem birt er í Fréttablaðinu í dag þar sem hann ræðst að undirmönnum sínum með ákaflega óvenjulegum hætti sem lýsir því að það er eitthvað rotið í ríki Dana.