Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 13:00:58 (681)

2003-10-16 13:00:58# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[13:00]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær hafa alla vega dregið fram að mönnum er alls ekkert á móti skapi að taka málefni Ríkisútvarpsins til gaumgæfilegrar umræðu og fjalla um hvert framtíðarhlutverk Ríkisútvarpsins á að vera í þjóðfélagi okkar.

Það er auðvitað ekki svo að þau atriði sem við, fjórir þingmenn Frjálsl., höfum talið upp í nokkrum liðum sé tæmandi upptalning á því sem þarf að ræða. Það þarf vafalaust að ræða fleira í sambandi við Ríkisútvarpið og framtíðarfyrirkomulag þess. En þetta er alla vega það sem við höfum lagt til málanna inn í þessa umræðu. Ég fagna því að menn telji að málið sé þess fyllilega vert að taka til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég vona sannarlega að þannig verði málið unnið, að farið verði í það af fullri alvöru að skoða starfsemi Ríkisútvarpsins og hvernig fyrirkomulag á að vera á henni á næstu árum eða áratugum.

Sérstaða Ríkisútvarpsins þarf að vera tryggð að mínu mati. Ríkisútvarpið á að hafa ákveðið menningarhlutverk. Það á að sjá til þess að allir þegnar Íslands geti átt aðgang að Ríkisútvarpinu og viti hvað Ríkisútvarpið stendur fyrir. Þó er ekki þar með sagt að afþreyingarefni, sem svo er stundum kallað í ljósvakamiðlum, t.d. ákveðnir sjónvarpsþættir sem hér hafa verið nefndir, séu algerlega teknir út úr útsendingartímum Ríkisútvarpsins, sjónvarps. Það þarf að marka Ríkisútvarpinu ákveðna stefnu og sérstöðu. Það mun auðvitað skýrast sérstaklega þegar menn hafa viðurkennt að Ríkisútvarpið á að vera fjármagnað af fjárlögum. Það á ekki að etja Ríkisútvarpinu út á hinn harða samkeppnismarkað fjármagnsins gegnum auglýsingarnar. En þangað hefur því verið beint á undanförnum árum til að það gæti yfirleitt rekið sig. Hallinn á Ríkisútvarpinu á undanförnum árum er til kominn vegna þess að afnotagjöld hafa ekki fylgt þeirri þróun sem þurft hefði til að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins og þar af leiðandi hefur Ríkisútvarpið orðið harður samkeppnisaðili, m.a. á auglýsingamarkaðnum.

Það er þarft að við tökum þessi mál til umfjöllunar, að þeim verði komið í ákveðinn farveg. Vonandi mun þessi þáltill. verða til þess að menn komist niður á að ræða framtíð og skipulag Ríkisútvarpsins og hvernig með það á að fara, virðulegi forseti.

Hér hefur komið til umræðu hin sérstæða frétt í Fréttablaðinu. Hún dregur fram það að Ríkisútvarpinu er að stórum hluta pólitískt stjórnað. Þar sitja menn í stjórnunarstöðum sem telja sérstakt hlutverk sitt að gæta að því að ekki myndist vinstri slagsíða á göngum Ríkisútvarpsins. Mér er það ljóst að í lögum um Ríkisútvarpið stendur að það skuli gæta hlutleysis og fjalla um málin á hlutlausan hátt, að öll sjónarmið skuli koma þar fram. Ég hefði talið að innan útvarpsins væri hægt að sjá til þess. Við sem erum starfandi á Alþingi eigum auðvitað að sjá til þess líka að málunum sé þannig fyrir komið og gera athugasemdir ef okkur finnst að Ríkisútvarpið halli á í pólitískri umfjöllun og hygli einhverjum ákveðnum.

Það er fullt tilefni til að gera það að umræðuefni sem kemur fram á síðum Fréttablaðsins í morgun, að útvarpsstjóri skuli senda fréttapóst til starfsmanna útvarpsins um að að hann telji að hægra fólk og hægri skoðanir vanti í Ríkisútvarpinu. Ég vil, svona fyrir sálarheill útvarpsstjóra, mælast til þess við sjálfstæðismenn að þeir gangi þar annað slagið um ganga svo að hann fái ró í sálina. Þeir ættu að leggja honum til stuðning að því leyti þannig að hann þurfi ekki að argast í starfsmönnum sínum.