Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 13:48:57 (682)

2003-10-16 13:48:57# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., Flm. SigurlS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir svohljóðandi þáltill.:

Alþingi ályktar að tekinn verði upp sérstakur skattafsláttur handa börnum. Afslátturinn fylgir hverju barni til 16 ára aldurs. Foreldrar eða forráðamenn barna nýta skattafsláttinn með frádrætti frá sköttum eða endurgreiðslu við álagningu líkt og um persónuafslátt væri að ræða. Fjmrh. er falið að skoða nánari útfærslu slíks afsláttar og hvort afslátturinn skuli fara stighækkandi eftir fjölda barna. Fjmrh. skal við upphaf haustþings 2004 leggja tillögur sínar fyrir Alþingi í frumvarpsformi. Skal að því stefnt að lög um skattafslátt handa börnum taki gildi í upphafi árs 2005.

Kröfur í nútímaþjóðfélagi um menntun, íþróttir og félagsstarf barna hafa kallað á aukin útgjöld foreldra vegna barna sinna. Slík útgjöld teljast nú nauðsynleg til að sinna sjálfsögðum þörfum barna svo þau fái notið viðbótarmenntunar, t.d. í tónlist, þjálfun í íþróttum og öðru félagsstarfi. Ekki fer á milli mála að með virkri þátttöku barna í áðurnefndu menntunar- og íþróttastarfi sem barninu býðst er jafnframt verið að efla mannkosti barnsins og verja það fyrir óæskilegum áhrifum t.d. af völdum vímuefna.

Þessi nýi kostnaður sem foreldar sjá nú í heimilishagkerfinu er sá kostnaður sem tengist alls kyns íþrótta- og tómstundaiðkun barna okkar. Kostnaður samfara þessu er umtalsverður. Fyrir utan æfingar og námskeiðagjöldin er allur búnaður sem íþrótta- og tómstundastarfi fylgir dýr. Þetta eru háar upphæðir þegar allt er tekið saman og verður til þess að margir foreldrar veigra sér við að senda börn sín á námskeið vegna kostnaðar.

Tekið er gjald fyrir skólamáltíðir og ræðst það að nokkru af fjárhag foreldra hvort þeir hafi efni á að greiða fyrir slíkt. Útkoman í þessu hefur orðið til þess að ekki fá öll börn heitan mat í hádeginu þrátt fyrir að skólinn eigi að kallast einsetinn heilsdagsskóli. Flest börn eru í skólanum frá átta til tvö eða um 34 kennslustundir á viku að meðaltali. Jafnframt þarf að greiða fyrir gæslu eða vistun eftir skóla ef foreldrar geta ekki sinnt þeim vegna vinnu. Oft er í boði einhvers konar námskeið í gæslunni og í flestum tilfellum þarf að greiða fyrir þau námskeið líka að viðbættu vistunargjaldi. Með þessu öllu er grunnskólinn sem á í raun að vera gjaldfrír orðinn stór kostnaðarliður í bókhaldi heimilanna.

Foreldrar vita frá fæðingu barna sinna að börnin eru það dýrmætasta sem þeir eiga. Þeir gera sitt besta til að hlúa að þeim og fræða þau um lífið og tilveruna því þau vita að þau koma til með að erfa landið. Við verðum því að leggja kapp okkar á að búa í haginn fyrir börnin. Þau eru framtíðin. Við verðum að leyfa þeim að taka þátt í hvers kyns heilbrigðu íþrótta- og tómstundastarfi og þar eiga öll börn að njóta jafnræðis og enginn á að verða út undan af fjárhagsástæðum. Við leggjum kapp á að gera þetta þó kostnaður sé mikill.

Sjálfsagt og eðlilegt verður að teljast að foreldrar og forráðamenn barna í íþrótta- og tómstundastarfi eigi skilið að fá umbun. Unnt er að veita þá umbun í skattalegu formi. Skattafslátturinn er góð umbun sem foreldrar og forráðamenn barnanna ættu skilið að fá fyrir það eitt að leyfa börnum sínum að taka þátt í heilbrigðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þetta yrði fjárfesting til framtíðar sem mundi án efa margborga sig að koma í framkvæmd. Börn og unglingar, foreldrar, forráðamenn, íþrótta- og tómstundafélög og þjóðarbúið sjálft hafa mikinn hag af þeirri skattalegu lausn.

Þegar hagur þjóðarbúsins er tíundaður sem skattaleg lausn kemur í ljós að hæfir einstaklingar koma til með að byggja upp landið enn frekar og það kemur okkur öllum til góða. Það er líka löngu sannað að ef börnum og unglingum er haldið uppteknum við heilbrigða íþrótta- og tómstundaiðkun falla þau síður í gryfju reykinga, áfengis og eiturlyfja. Þannig er þetta ekki síður forvörn því að í dag eru okkur sagðar sögur af sölumönnum dauðans á skólalóðum grunnskólanna.

Einnig ganga sögur um að auðveldara sé fyrir ungling að kaupa hass en bjór og að eiturlyf megi kaupa í heimsendingu sem eru afgreidd með skjótari hætti en pitsa í heimsendingu. Eðlilega hrýs fólki hugur við sögum af þessu tagi og vill með ýmsum ráðum vernda börn sín fyrir því böli sem getur fylgt reykingum, áfengi eða eiturlyfjaneyslu.

Frjálslyndi flokkurinn leggur mikið upp úr því að stuðningurinn við foreldra og forráðamenn barna í skattalegu formi verði efldur enn frekar. Þessi þáltill. er ein af þeim raunhæfu lausnum sem Frjálslyndi flokkurinn leggur til svo foreldrar geti betur eflt forvarnastarf innan fjölskyldu sinnar.