Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 13:54:59 (683)

2003-10-16 13:54:59# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hreyfir hér mjög mikilvægu máli sem er aðbúnaður barnafjölskyldna í landinu og hún kemur hér með athyglisverða tillögu um með hvaða hætti væri unnt að koma til móts við þær. Ég tek fram í upphafi máls míns að ég kem ekki í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi Samfylkingarinnar við þessa leið. Við höfum farið fremur varlega í að fara með mismunandi skatta fram gagnvart ólíkum hópum en það á að skoða allt í þeirri stöðu sem orðin er í þessum málum í samfélaginu. Hingað til hafa það verið barnabætur og persónuafsláttur kannski fyrst og fremst sem notað hefur verið til að jafna gagnvart barnafjölskyldunum. Skattkort hafa verið boðuð og á tímabili skoðuðum við í mínum flokki möguleika á fjölskylduskattkorti sem ég er enn þá nokkuð hrifin af. Þá væru tekjur allrar fjölskyldunnar skoðaðar og reynt að meta þær saman þó að tekið væri tillit til sérsköttunarinnar. En þetta er ekki einfalt mál.

Þegar við erum á ferð í fyrirtækjum og úti á meðal fólks þá benda t.d. einstæðir foreldrar mjög oft á þörfina fyrir að hafa leyfi til að nýta skattkort barna sinna sem eru komin yfir 16 ára aldur og hafa bent á það sem Sigurlín Margrét nefnir í tillögunni, þ.e. hin miklu útgjöld fjölskyldunnar og aldrei verða þau þyngri fyrir heimilið en þegar er einn framfærandi. Þess vegna er svo mikilvægt að við á Alþingi grípum þau tækifæri sem gefast til þess að ræða málefni barnafjölskyldunnar og að við horfum hispurslaust framan í þá staðreynd að að henni er ekki vel búið í samfélagi okkar. Við eigum að ræða hvers konar samfélag við viljum og hvaða hlutverk við ætlum fjölskyldunni í íslensku samfélagi.

Ég ræddi um matvælaverð á dögunum og ég vísaði til upplýsinga frá skattstofunni en hún gerir úttektir fyrir meðalfjölskylduna. Ég fékk upplýsingar um að matarútgjöld fyrir fjölskyldu sem mælist 2,82, þ.e. nokkuð liðlega undir þriggja manna fjölskyldu, væru um 40 þús. kr. Sú mælieining, 2,82, segir okkur mikið um hvaða þróun hefur orðið í samfélagi okkar og við eigum að spyrja: Viljum við að slík þróun haldi áfram? Börnum fækkar í öllum löndum Evrópu og sögur eru sagðar af því að foreldrar á framabraut kjósi að vera barnlaus vegna þess að stuðningur við barnafjölskyldur og tækifæri fyrir foreldra í erfiðum störfum til að vera bæði foreldrar og sinna starfi eru ekki mikil og að þetta er erfið staða. Erfið staða, já fyrir foreldrana sem vilja vera foreldrar, sinna erfiðum störfum og eiga börn en það eru börnin sem við eigum að einblína á. Staða barnanna í samfélaginu, umönnun barnanna, möguleikar foreldra til að vera með börnunum í veikindum, taka þátt í því sem er að gerast hjá þeim, t.d. í skólanum, og vera foreldri upp á það sem foreldrahlutverkið þýðir.

Við töluðum líka hér á dögunum um leikskólann og Samfylkingin hefur farið fram með það í kosningabaráttu að byrja að taka leikskólann undir grunnskólaskylduna, þ.e. elstu og efstu árgangar og elstu börn í leikskóla séu í skóla og í upphafi verði fjórir tímar gjaldfrjálsir af því að það væri skólatími barnsins. Vinstri grænir gengu lengra í tillögum sínum sem ræddar voru í síðustu viku og vilja að nefnd sé boðuð þar sem ríki og sveitarfélög skoði það saman að leikskólinn verði frír.

Af hverju erum við að ræða málið frá svona ólíkum sjónarhóli? Hvort leikskóli eigi að vera frír því að hvert leikskólapláss er svo þungur baggi fyrir hvert foreldri. Við ræðum matarverðið af því að maturinn fyrir þriggja manna fjölskyldu, ég tala ekki um fjögurra manna, er allt of þungur póstur miðað við launakjör í landinu og við höfum verið að ræða um hvernig hægt sé að koma til móts við barnafjölskyldur.

Við ræðum þetta vegna þess að úrræði ríkisstjórnarinnar hafa verið slök. Um margra ára bil hefur verið dregið úr barnabótunum. Í barnalandinu, hjá barnaþjóðinni hefur núv. ríkisstjórn valið það þegar hún er að ná sér í peninga og spara að draga úr barnabótum og rýra þær að verðgildi.

Nú er búið að lofa og boða að aftur verði farið að auka barnabæturnar, en þá er dregið úr vaxtabótunum sem er einn pósturinn enn sem ég hef ekki nefnt og er mjög þung útgjöld fyrir barnafjölskyldur, fólk sem er að koma jafnvel úr námi eða fólk sem hefur verið alla tíð á lágum launum, er að koma sér upp heimili, vill koma sér örugglega undir þak og eignast sitt eigið heimili.

Þetta er ekki efnilegt og sú mynd er ekki fögur sem ég dreg upp. En ég kem hér til að segja við hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur sem hefur komið inn á Alþingi Íslendinga og brotið enn eitt glerþakið sem við erum oft að fást við í samfélagi okkar og hefur oft komið í hlut kvenna að brjóta, að koma hér og berjast, ekki bara sem einstaklingur á Alþingi fyrir bættum hlut þeirra sem hún ætlar að bera fyrir brjósti heldur líka sýna það að fólk með hömlur eins og hún er með stendur fyrir sínu. Ég er feykilega hreykin af því að kynsystir mín hefur tekið að sér þetta hlutverk. Þess vegna kem ég hér og segi við hana: Þó að ég geti ekki lofað stuðningi við nákvæmlega þá útfærslu sem hún leggur til, þá heiti ég henni stuðningi við þær hugmyndir sem hún er að setja hér fram um að taka á málum barnafjölskyldnanna, að bæta eigi hag barnafjölskyldna og að miklu sé ábótavant. Við eigum að taka höndum saman um að laga það.