Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:02:26 (684)

2003-10-16 14:02:26# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur um sérstakan skattafslátt vegna barna, er einn vegvísirinn enn í þeirri umræðu að styrkja og bæta kjör barnafólks og koma á auknu jafnrétti milli þeirra sem eiga og ala upp börn í samfélaginu. Það er alveg hárrétt sem hér er komið inn á að við beitum skattkerfinu til jöfnunar, þ.e. eitt hlutverk í beitingu skattkerfisins er annars vegar að jafna byrðar, taka skatta af þeim sem við teljum að geti staðið undir því að greiða skatta og síðan að veita stuðning af hálfu ríkisins með einum eða öðrum hætti til þeirra sem við teljum að þurfi helst á því að halda. Þannig beitum við skattkerfinu beint til jöfnuðar. Það er því í hæsta máta eðlilegt að hér sé borin hér fram tillaga sem miðar að því að horfa á sérstakan skattafslátt vegna barna.

Það er svo að börnin eru þau sem landið erfa, börnin eru það dýrmætasta sem hver og ein kynslóð leggur fram til næstu kynslóðar og því skiptir miklu máli í allri þeirri vegferð að hver kynslóð skili af sér börnum til næstu kynslóðar sem taki betur á hlutunum en sú fyrri gerði. Það hlýtur að vera hið eilíflega og ævinlega hlutverk okkar sem viljum berjast fyrir bættum heimi til framtíðar og geta þar stöðugt stigið skref.

Það er alveg hárrétt og ég get í hæsta máta tekið undir það sem stendur í greinargerð með þessari tillögu, með leyfi forseta:

,,Kröfur í nútímaþjóðfélagi um menntun, íþróttir og félagsstarf barna hafa kallað á aukin útgjöld foreldra. Þessi útgjöld teljast nú nauðsynleg til að sinna sjálfsögðum þörfum barna, svo að þau fái notið íþrótta- og tómstundastarfs sem og viðbótarmenntunar, t.d. í tónlist. Virk þátttaka barna í félags- og íþróttastarfsemi er til þess fallin að efla mannkosti barns og verja það fyrir óæskilegum áhrifum, t.d. af völdum vímuefna. Kostnaður vegna þessa er umtalsverður og oft meiri en margir foreldrar geta staðið undir.``

Ég held að við þekkjum þetta öll í raun. Við getum nefnt mörg dæmi sem staðfæra þetta. Öll mismunun á möguleikum barna til þess að njóta menntunar og þroska í samfélaginu er stórhættuleg. Því meiri mismunun, því meiri ójöfnuður, því meira bil fáum við á milli þjóðfélagshópa ef hver einstaklingur, sem er dýrmætur í sínu samfélagi, fær ekki að þroskast innan samfélagsins á eðlilegan hátt eða búa sig sig undir að takast á við þau verkefni sem honum verða síðan falin. Það er því afar brýnt að sem mestur jöfnuður ríki í möguleikum barna alveg frá fæðingu og til fullorðinsára þegar þau fara sjálf að hasla sér völl í lífinu.

Þetta frv. er því einn góður vegvísir á þeirri leið. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum flutt hér þáltill., eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist réttilega á, um gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum þannig að foreldrar geti sent börn sín á leikskóla, bæði til að njóta þeirrar menntunar sem þar er í boði, enda er leikskólinn orðinn hluti af hinu almenna mennta- og skólakerfi, og einnig til þess að koma til móts við foreldra að þeim séu ekki íþyngt með óhóflegum greiðslum til að geta sent börn sín á leikskóla eða notið þeirrar þjónustu sem leikskólinn er fyrir fjölskyldur í landinu. Því höfum við lagt hér fram frv. um gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum, sem er einn liður að sama marki og þessi tillaga hér miðar að.

Það er líka vert að gera sér grein fyrir því að í gegnum skattkerfið er núna þegar beitt ákveðinni mismunun. Það eru allar þær tekjutengingar sem fólk má búa við. Tökum t.d. ungt fólk sem er að koma úr námi eða stofna fjölskyldu, koma sér upp húsi og heimili, þetta er gríðarleg fjárfesting sem þarf þarna að stofna til og það sem þetta unga fólk hefur til að afla sér fjármuna til þess eru hugur og hönd, þ.e. með vinnu sinni. Þá er nú þannig í pottinn búið að einmitt þetta launafólk, fólk sem vinnur og vinnur og reynir að ná inn auknum fjármunum í gegnum laun vinnu sinnar, er hundelt með tekjutengingum, barnabætur tekjutengdar, afborganir af námslánum tekjutengdar, húsaleigubætur eða vaxtabætur, tekjutengingarnar eru alls staðar. Lífeyririnn er tekjutengdur. Þannig að ungu fólki sem er að koma upp börnum og heimili er á vissan hátt refsað í gegnum skattkerfið og gert erfiðara fyrir að koma sér upp heimili.

Sú tillaga sem hér er flutt er einmitt liður í því að skoða þá hlið málsins að veita sérstakan skattafslátt vegna barna. Ég tel að þetta sé kannski ekki beinasta leiðin til þess. Við eigum að taka á öðrum leiðum í þessum málum frekar. En engu að síður er þessi tillaga mjög sterkt innlegg inn í þá umræðu og það er athyglisvert, og ég held að þingið ætti að taka mið af því í vinnu sinni og þeim lagabreytingum sem hér gætu verið unnar, taka tillit til þess að hvert málið á fætur öðru kemur hér inn á þing sem miðar að því að styrkja stöðu barnafjölskyldna, jafna kjör og styrkja stöðu barnafjölskyldna og stöðu barna í samfélaginu. Þetta eru ein skýrustu skilaboðin, finnst mér, sem hafa komið inn á þing nú í upphafi og væri vel ef Alþingi tæki nú virkilega heildstætt á þessum málum og þannig að verkin töluðu en ekki bara orðin ein, að það væru verkin sem sýndu merkin. Þessi tillaga hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur er góður vegvísir inn í þá heildarumræðu.