Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:22:16 (690)

2003-10-16 14:22:16# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna því að hér er lögð fram tillaga til að styrkja og styðja barnafjölskyldur í landinu. Ég vil þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur og hennar meðflutningsmönnum fyrir framlagningu á þessu máli. Nú er það ekki svo að ég muni hér og nú lýsa yfir stuðningi við þá leið sem hér er lagt til að farin verði. Ég er fyrst og fremst að lýsa stuðningi við að styrkja og styðja barnafjölskyldur betur en gert hefur verið.

Ég vil samt, herra forseti, segja að ég tel ekki miklar vonir til að á þessu kjörtímabili verði hagur barnafjölskyldna bættur. Það er full ástæða til að rifja upp og verður aldrei of oft gert að á síðasta kjörtímabili skerti ríkisstjórnin verulega barnabætur og þar með kjör barnafjölskyldna. Staðan er einfaldlega sú að minna er varið til barnabóta á árinu 2003 en var á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Það vantar verulega upp á það, sennilega einar 1.500 millj. kr. Skerðing á barnabótum í tíð þessarar ríkisstjórnar er sennilega um 10 milljarðar kr.

Ég og minn flokkur höfum viljað fara þá leið að hafa barnabætur ótekjutengdar og greiða með öllum börnum að 18 ára aldri. Ísland er eitt fárra ríkja í Evrópu sem tekjutengir barnabætur. Á barnabætur er yfirleitt litið sem rétt barnsins sem ekki eigi að vera tengdur tekjum foreldra. Á árinu 1995 var ótekjutengdur hluti barnabóta greiddur með öllum börnum að 16 ára aldri. Nú er hann einungis greiddur með börnum að sjö ára aldri.

Ég sé að hv. þm. miðar við að afslátturinn, þ.e. sérstakur ótekjutengdur skattafslátt handa foreldrum eða forráðamönnum sem hafa börn á framfæri sínu, nemi tiltekinni upphæð fyrir hvert barn til 16 ára aldurs. Því væri fróðlegt, við þessa umræðu, að heyra sjónarmið hv. þm. um hvers vegna miðað er við 16 ára aldur en ekki 18 ára aldur.

Ég vil halda því til haga að auðvitað eru til margar leiðir til að bæta hag barnafjölskyldna gegnum skattkerfið, eins og hv. þm. leggur til. Ég vil rifja upp að ég hef á mörgum undangengnum þingum flutt tillögu um að foreldrar geti nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna. Ónýttur persónuasláttur barna er verulegur. Á bak við það er svipuð hugsun og hér er og var ég þá sérstaklega að hugsa um einstæða foreldra þó að vissulega þurfi að skoða það líka í ljósi þess að tekjulágar barnmargar fjölskyldur þyrftu líka á slíkri aðstoð að halda í skattkerfinu.

Ég vil taka fram, herra forseti, að ég tek undir þau rök sem hv. þm. flytur fyrir tillögu sinni, ekki síst fyrir þeim kafla sem fjallar um þær kröfur sem eru í nútímaþjóðfélagi um menntun, íþróttir, félags- og tómstundastarf barna. Því miður stöndum við hér frammi fyrir stéttskiptu þjóðfélagi þar sem stéttskipting er frekar að aukast. Það hefur komið fram í ýmsum könnunum að börn tekjulágra fjölskyldna eða einstæðra foreldra með litlar tekjur hafa ekki sömu möguleika og börn efnameiri foreldra til að stunda íþróttir og ýmiss konar félagsstarf. Þetta kostar einfaldlega miklu meira en það gerði áður og ýmis starfsemi sem fram fer í skólunum, íþróttastarfinu o.fl., er kostnaðarsöm, ekki síst fyrir tekjulágar fjölskyldur. Reyndar hafa sveitarfélögin séð ástæðu til þess, séð sig knúin til að veita sérstaka fjárhagsaðstoð handa tekjulágum fjölskyldum til að börn þeirra geti stundað ýmiss konar tómstundastarf, íþróttir, félagastarf o.fl. sem önnur börn geta tekið þátt í. Rökin sem hér eru sett fram eru sannarlega rétt. Þó að ýmsir telji að kostnaðurinn við að ala upp börn sé mestur á fyrstu árum ævi barnanna þá er hann jafnvel enn meiri þegar börnin vaxa úr grasi, ekki síst þegar börn eru komin kannski á 12--16 ára aldurinn.

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þá hugsun sem hér kemur fram. Þessari tillögu mun væntanlega vísað til efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Ég tel næsta öruggt að hún muni þar fá þá umfjöllun sem henni ber. Hv. formaður efh.- og viðskn. boðaði það á síðasta fundi að tillögur þingmanna mundu nú fá meira vægi í efh.- og viðskn. en áður hefur verið gert og teknar þar til efnislegrar umfjöllunar. Það hefur ekki verið gert áður, sem er náttúrlega ósiður og vanvirðing við minni hlutann á þinginu. Tillögur þingmanna fá yfirleitt umfjöllun á korteri eða hálftíma á lokadögum þingsins. Þær eru jú sendar til umsagnar en fá yfirleitt ekki efnislega umfjöllun í nefndum. Nú reynir á þetta.

Ég efa ekki að hv. þm. Pétur Blöndal, formaður efh.- og viðskn., muni standa við það sem hann boðaði á síðasta fundi nefndarinnar. Ég vænti þess að tillagan fái góða umfjöllun og verðuga í efh.- og viðskn. eins og hún á skilið og þakka hv. þm. fyrir að flytja þessa tillögu.