Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:36:57 (694)

2003-10-16 14:36:57# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir að hreyfa þessu máli hér um leið og ég óska henni til hamingju með það að vera hér að flytja sitt fyrsta þingmál og ryðja áfram brautina sem hún hefur gert með jafnglæsilegum hætti og raun ber vitni.

Það mál sem hér er flutt, eins og hefur komið fram hjá flokkssystrum mínum sem hér hafa talað, er ekki endilega þannig að við getum skrifað upp á það beint eins og það er hér, heldur getum við tekið heils hugar undir hugmyndina og þann hug sem liggur að baki og það er mikilvægt atriði.

Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar, frú forseti, að það eigi að nota skattkerfið til meiri jöfnunaraðgerða en gert er. Mig langar til að segja frá vinnu sem átti sér stað í svokallaðri byggðanefnd forsrh. á kjörtímabilinu 1995--1999 þar sem verið var að ræða um ýmsar aðgerðir í byggðamálum og þetta tengdist því og væntanlegri kjördæmabreytingu. Í þeirri ágætu nefnd var rætt töluvert mikið um námskostnað og hvernig við eigum að jafna aðstöðu unglinga og annars fólks til að sækja sér nám. Ég tók sem dæmi að ég mundi vilja gera þetta í gegnum skattkerfið og færði fyrir því þau rök að ef ég sem einstaklingur keypti mér á sama tíma hlutabréf í fyrirtæki sem skráð var á markað hér á Íslandi gæti ég merkt við það á skattframtali mínu og þá kæmi vottorð frá viðkomandi hlutafélagi um að ég hefði keypt þessi bréf og ég fékk skattafslátt 1. ágúst árið á eftir. Hugmynd mín var sú að við mundum nota þetta sama kerfi til að jafna aðstöðu fólks til að fara í framhaldsnám, með öðrum orðum ef ég fjárfesti í menntun barna minna ætti ég að geta talið það fram á skattskýrslu, þá kæmi vottorð frá viðkomandi skóla um að viðkomandi börn sæktu nám og í kjölfarið skattafsláttur í staðinn fyrir að greiða það út eins og gert er.

Þetta fékk því miður ekki hljómgrunn. Ég vildi aðeins nefna þetta hér sem dæmi um það sem hægt er að gera í því kerfi sem við rekum, okkar ágæta skattkerfi sem er um margt langt á undan öðrum. Ég ætla ekki að eyða tíma í að ræða það hér en hvað varðar kerfið sjálft og tæknina væri auðvelt að gera þetta á þennan hátt og að því leytinu til væri það mjög auðvelt, frú forseti, að jafna aðstöðu fólks við barnauppeldi og koma til móts við barnmargar fjölskyldur í gegnum skattkerfið, hvort sem það er ótekjutengdur skattafsláttur eða tekjutengdur.

Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að þingmaður sem sat á Alþingi fyrir nokkuð mörgum árum fyrir Alþýðuflokkinn í Norðurl. v., Jón Sæmundur Sigurjónsson, flutti hér fyrir lifandis löngu tillögu um að foreldrar gætu nýtt ónýttan persónuafslátt nemenda í framhaldsskólum til þess að jafna þennan mun. Þetta þótti merkileg tillaga þó að hún hafi ekki náð fram að ganga. Enn fremur má minna á það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan um flutning sinn á tillögum um ónýttan persónuafslátt barna.

Herra forseti. Eins og kemur fram í ágætri grg. þáltill. aukast í sífellu kröfurnar um menntun, íþróttir og félagsstarf barna í nútímaþjóðfélagi. Þessar kröfur sem við erum að innleiða í þjóðfélag okkar valda mjög miklum mismun milli barna eftir því hvernig fjárhagsstaða eða atvinna foreldra er. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál hvernig við sjáum þennan mismun vera sífellt að aukast. Ég segi það alveg hiklaust og fullyrði að ansi oft er ég viss um að þetta er ein af ástæðunum fyrir einelti sem oft er rætt um í skólum og hefur mikið verið rætt um hér upp á síðkastið. Ég segi það alveg hiklaust sem gamall kennari og sem íþróttaþjálfari að oft og tíðum varð maður var við það að börn efnaminni foreldra gátu ekki sinnt áhugamáli sínu, hvort sem það var íþróttaiðkun eða annað, vegna þess að peningar voru einfaldlega ekki til. Þetta er náttúrlega eitt það versta sem við látum viðgangast í okkar þjóðfélagi, þessi mismunun er sífellt að aukast og þess vegna er það sá hugur sem kemur fram hér í umræddri þáltill. sem er svo sérstaklega góður. Við eigum örugglega samleið hvað það varðar, við þingmenn Samf. og þeir þingmenn Frjálsl. sem flytja þessa þáltill.

Virðulegi forseti. Það hefur líka komið hér fram við þessa umræðu að það er erfiðara að vera með börn á framfæri í dag. Barnabætur hafa verið skertar eins og hér kom fram áðan. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem ég efast ekki um að er með þessar tölur allar á hreinu, segir að í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka hafi skerðing á barnabótum verið allt að tíu milljarðar í þau ár sem ríkisstjórnin hefur setið og það er auðvitað mjög alvarlegt mál. Nú á að halda áfram, ríkisstjórnin hefur fundið hin breiðu bök til að ná saman fjárlögum og nú á að ráðast á vaxtabæturnar sem auðvitað kemur líka illa við ungt fólk, fólk með börn, fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið.

Þetta, virðulegi forseti, vildi ég leggja inn í umræðuna um leið og ég endurtek það sem ég sagði áðan um það framtak sem hér er flutt og óska hv. þingmanni til hamingju með sitt fyrsta þingmál. Það er sérstaklega ánægjulegt og það sem kemur fram í því. Þó að ég viti að það hefur verið lenska hér að tillögur frá stjórnarandstæðingum fái ekki mikla umræðu eða að mikið sé hlustað á þær vænti ég þess að tillagan fái mikla og góða umræðu í þeirri nefnd sem henni verður vísað til. Ég trúi því og treysti að hv. formaður efh.- og viðskn., ef þessi þáltill. kemur þangað, muni taka málefnið til gaumgæfilegrar athugunar og umræðu, að þetta verði rætt þar vel og komi helst aftur til þings.