Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:45:01 (695)

2003-10-16 14:45:01# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil færa hv. þingmanni árnaðaróskir í tilefni af því að hafa flutt sitt fyrsta þingmál sem er sögulegt hér í þingsölum. Ég hygg að þetta sé í fyrsta sinn sem heyrnarlaus þingmaður situr á þingi og flytur þingmál. Það er fyllsta ástæða til þess að óska þingmanninum til hamingju með þennan áfanga og vona ég að henni farnist vel í starfi á þessum vettvangi.

Efni tillögunnar fjallar um sérstakan skattafslátt vegna barna og lýtur að því að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldufólks með tilteknum hætti eins og greint er frá í tillögunni. Rökstuðningurinn fyrir því er tvíþættur, annars vegar almenns eðlis, sem sé að almenn þjóðfélagsleg rök séu fyrir því að efla stuðning við barnafjölskyldur, að það sé þjóðfélagslega nauðsynlegt að barnafjölskyldum vegni vel þannig að fólk kjósi að eignast börn sem síðar koma til starfa í þjóðfélaginu með tíð og tíma. Í öðru lagi er rökstuðningurinn sértæks eðlis, þ.e. vísað er til þess að því að kostnaður fylgi því að eiga börn og rétt sé að auka ráðstöfunarfé foreldranna til þess að mæta þeim kostnaði.

Ég get tekið undir þessi rök í öllum meginatriðum. Það er ljóst ef við skoðum stefnu stjórnmálaflokkanna á Íslandi að það er gegnum gangandi í ályktunum þeirra að ályktað er á þann veg að styðja við barnafjölskyldur vegna þess að menn telja það æskilegt markmið að fólk eigi börn og fremur fleiri en færri og hafi efnahagslega afkomu til að geta alið þau vel upp.

Í samþykktum flokksþings Framsóknarflokksins er að finna þennan rauða þráð sem ég var að rekja sem almenna stefnu og við sjáum tillögur um það mjög víða í okkar samþykktum. En við leggjum fyrst og fremst áherslu á almennar aðgerðir til þess að styðja við bakið á barnafjölskyldum og öðrum landsmönnum með því að reka efnahagsstefnu og atvinnustefnu sem tryggir hátt atvinnustig og sem tryggir vaxandi kaupmátt ár frá ári. Segja má að undanfarin átta ár hafi verið eitt mesta framfaraskeið fyrir þjóðina í efnahagslegu tilliti. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið ár frá ári í átta ár samfleytt og vaxandi efnahagur fólks er auðvitað stuðningur við barnafjölskyldur, alveg eins og kemur fram í ályktunartillögunni þar sem gert er ráð fyrir að hækka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna með sérstökum skattafslætti. Það sem menn hafa unnið að í efnahags- og atvinnumálum hefur því haft þau áhrif sem hér er lýst og sóst er eftir að ná fram.

Í þriðja lagi leggjum við áherslu á sem almenna aðgerð að hækka persónuafslátt --- það var ein af samþykktum okkar á síðasta flokksþingi --- og hækka lán til íbúðakaupa upp í 90% með þeim rökum að ef við gerum það í gegnum Íbúðalánasjóð þá séum við að lækka útgjöld heimilanna til íbúðakaupa og þar með að hækka ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna.

Í fimmta lagi vil ég nefna sem sérstakt áhersluatriði af okkar hálfu sem hefur þessi sömu áhrif og tillagan stefnir að, að á grundvelli þessa framfaraskeiðs í efnahagsmálum sem hefur skilað fólki vaxandi kaupmætti, hefur skilað ríkissjóði vaxandi tekjum, þá hefur verið varið til heilbrigðis- og menntamála gríðarlegum peningum umfram það sem var fyrir átta árum. Hækkunin á hverju ári nemur mörgum milljörðum króna sem renna til þessarar þjónustu og til þeirra sem njóta bóta almannatrygginga.

Efnahags- og atvinnustefnan hlýtur alltaf að vera undirstaðan í hverju þjóðfélagi og hinar almennu aðgerðir hljóta alltaf að draga vagninn í þessum efnum.

En sértækar aðgerðir eru líka réttlætanlegar og það er líka skoðun okkar framsóknarmanna eins og sjá má á samþykktum okkar á síðasta flokksþingi. Ég vil nefna nokkrar sem hafa sömu áhrif eða svipuð og þessari tillögu er ætlað að hafa.

Í fyrsta lagi er í samþykktum okkar ályktað um að foreldrarnir geti nýtt ónýttan persónuafslátt 16--18 ára barna. Þessi tillaga gengur að mörgu leyti í sömu átt og tillaga flutningsmanna þó hún eigi ekki við um sama aldurshóp. En hún er sama eðlis að því leyti að réttur barnsins getur nýst eða ónýttur réttur barnsins getur nýst til að auka ráðstöfunartekjur foreldra.

Í öðru lagi var ályktað um að hækka frítekjumark barnabóta og að stærri hluti barnabótanna verði ótekjutengdur en áður var. Ég vil geta þess að á undanförnum þremur árum hefur fjármagn til barnabóta verið aukið um 2 milljarða kr.

Í fjórða lagi var ályktað um það í okkar samþykktum að leikskólagjöld barna verði frádráttarbær frá skattstofni foreldra. Þessi tillaga er með alveg sömu rökum og koma fram í rökstuðningi flutningsmanna, þ.e. að rétt sé að mæta tilteknum útgjöldum barnafjölskyldna. Flutningsmenn leggja til að það verði gert með sérstökum skattafslætti. Við erum með aðra útfærslu eins og að leikskólagjöld geti verið frádráttarbær og að foreldrar geti nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna 16--18 ára.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, geta tillagna um að lækka endurgreiðslu lána lánasjóðsins þannig að ungt fólk sem er að ljúka sínu námi er auðvelduð framfærslan með framkvæmd þessara tillagna þegar þeim verður hrint í framkvæmd, en þær miða að sama marki og tillagan sem hér er flutt.