Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:56:48 (698)

2003-10-16 14:56:48# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Frú forseti. Það er að vísu rétt sem fram kom hjá hv. þm. að Framsóknarflokkurinn getur ekki bundið aðra en sig sjálfan að stefnuskrá sinni. Hv. þm. er væntanlega að vísa til þess að hann þarf að semja við samstarfsaðila eins og Sjálfstæðisflokkinn til þess að ná fram stefnumálum sínum.

Ég vil spyrja hv. þingmenn: Var reynslan svo góð á síðasta kjörtímabili af því að ná fram stefnumiðum Framsóknarflokksins í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að ástæða hafi verið til þess að framlengja það samstarf? Getur hv. þm. ekki verið sammála mér um að miklu vænlegra hefði verið til árangurs við að ná fram stefnumálum Framsóknarflokksins með því að ganga til liðs við aðra en Sjálfstæðisflokkinn?

Hv. þm. getur ekki neitað því að mörg stefnumál Framsóknarflokksins sem snúa að fjölskyldunni, t.d. fjölskyldan í fyrirrúmi, náðu ekki fram að ganga á liðnu kjörtímabili, ekki einu sinni aðalkosningamál þeirra um að bæta hag barnafjölskyldna með því að greiða ótekjutengdar barnabætur að 16 ára aldri. Framsóknarmenn náðu því aðeins fram að ótekjutengdar barnabætur eru greiddar að sjö ára aldri.

Öll þau ár sem ég hef verið á þingi man ég ekki eftir öðrum eins mótmælum og voru á liðnu kjörtímabili frá öryrkjum og öldruðum sem stóðu hér af og til fyrir utan Alþingishúsið að mótmæla skertum kjörum sínum, þar sem kjör þeirra voru svo mjög rýr samanborið við aðra í þjóðfélaginu. Mér finnst þetta ekki mikið til að státa sig af í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að framsóknarmenn hefðu verið miklu betur settir ef þeir hefðu snúið sér að öðrum en Sjálfstæðisflokknum að því er varðar kjörtímabilið sem nú er að hefjast. Ég spái því að framsóknarmenn muni í lok þessa kjörtímabils sitja eftir með sárt ennið að því er varðar framkvæmd stefnu sinnar líkt og þeir gerðu á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Fá það óþvegið þá.)