Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:01:30 (700)

2003-10-16 15:01:30# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., Flm. SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég er gríðarlega þakklát fyrir það að mál mitt hefur fengið mjög góða umfjöllun á þingi og sé að hinir flokkarnir eru mikið að velta fyrir sér sama málefni og við. Öll viljum við að sjálfsögðu gera vel við barnafjölskyldur og er þetta ein lausn, ein leið, af fjöldamörgum öðrum sem við getum farið. Ég vona það sannarlega, eins og hv. þm. nefndi áðan, að þegar þetta mál fer til efh.- og viðskn. fái það réttláta og góða umfjöllun. Vegna þess, eins og hv. þm. benti á áðan, að þó Framsóknarflokkurinn hafi gert marga góða hluti og margt gott sé á þeirra stefnuskrá, hafa öryrkjar og barnafjölskyldur ekki fengið það sem þau eiga skilið og eru langt á eftir í því sem réttlátt er. Og þetta verður að laga.

Það er alveg greinilegt að í þessu samfélagi eru ótal margir hópar, stórir hópar, sem missa mjög mikið og margir þurfa að fá leiðréttingu á sínum kjörum. Við getum notað skattkerfið og veitt þeim skattafslátt og afnumið tekjutenginguna.

Alveg eins og hv. þm. Pétur Blöndal hjá Sjálfstæðisflokknum benti réttilega á áðan, þegar verið var að ræða um það að foreldrar ættu að geta fengið styrki til þess að börnin gætu stundað tómstunda- og íþróttastarf, verðum við líka að líta á það að barnmargar fjölskyldur og barnafjölskyldur í landinu skulda gríðarlega mikið. Skuldabaggi þeirra er hár.

Ég vona að mitt mál fái góða og réttláta umfjöllun og að það nái fram að ganga. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna í þingheimi í dag.