Stofnun stjórnsýsluskóla

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:44:40 (707)

2003-10-16 15:44:40# 130. lþ. 13.4 fundur 24. mál: #A stofnun stjórnsýsluskóla# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að flytja hér till. til þál. sem ég mæli nú fyrir um stofnun stjórnsýsluskóla en flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og hv. þm. Jóhann Ársælsson.

Efni þessarar tillögu má rekja til þess að Alþingi samþykkti í júní árið 1998 þáltill. um könnun á starfsskilyrðum stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlögum við réttarbrotum í stjórnsýslunni, sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu. Nefndin sem fjallaði um þetta viðfangsefni var undir forustu Páls Hreinssonar og verkefnið var hjá forsrn. og forsrh. skilaði skýrslu um málið árið 1999. Í þessari skýrslu komu fram margar markverðar tillögur sem snerta bætt skilyrði í stjórnsýslunni og til þess að tryggja frekar réttaröryggi borgaranna. Má þar nefna:

Ráðherraábyrgð og rétt þingmanna til upplýsinga.

Meinbugi sem eru á íslenskri löggjöf.

Starfrækslu sérstakrar lagaskrifstofu.

Framtíðarstefnu um þróun stjórnsýslukerfisins.

Endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi.

Réttaröryggi borgaranna.

Siðareglur opinberra starfsmanna.

Starfrækslu stjórnsýsluskóla fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Ég tel afar brýnt að Alþingi fylgi eftir tillögum sem fram koma í skýrslunni um starfsskilyrði stjórnvalda, þannig að þær komist til framkvæmda. Ekki bólar á því, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. eða ríkisstjórnin sé að fylgja eftir framkvæmd þeirra mörgu gagnmerku tillagna sem komu fram í skýrslu Páls Hreinssonar. Þessa tillögur munu allt í senn tryggja betur réttaröryggi borgaranna, herða allt eftirlit með framkvæmd stjórnsýslunnar og skýra betur hvar ábyrgðin liggur, auk þess sem viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslunni verða virk, ekki síst þegar um er að ræða að framkvæmdarvaldið tekur ákvarðanir sem byggjast á matskenndum lagaheimildum og stjórnvaldsákvörðunum.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert sér far um að fylgja þessum tillögum eftir með margvíslegum hætti, bæði með því að það yrði starfrækt sérstök lagaskrifstofa, með tillögum um siðareglur opinberra starfsmanna, svo dæmi séu nefnd. Við, þingmenn Samfylkingarinnar, munum leitast við á komandi árum að leggja okkar af mörkum til þess að þetta verði framkvæmt.

Tillaga þessi felur sem sagt í sér að hér verði starfræktur stjórnsýsluskóli fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga eins og gerist reyndar víða í nágrannalöndum okkar. En í skýrslu forsrh. um starfsskilyrði stjórnvalda kemur m.a. fram að óhjákvæmilega hljóti að rísa vandamál þegar opinberir starfsmenn með aðra menntun en lögfræði komi að töku ákvarðana og beitingu almennra efnisreglna stjórnsýsluréttar hafi þeir ekki hlotið grunnmenntun á þessu sviði. Einnig kemur fram að almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins séu flóknar og ákveðinnar lágmarksþekkingar í lögfræði sé þörf svo unnt sé að beita þeim.

Í mörgum nágrannalöndum okkar eru starfandi stjórnsýsluskólar fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Slíkur skóli er ekki starfræktur hér á landi. En það er athyglisvert, og kom fram í skýrslu Páls Hreinssonar, að ríkið ver árlega á bilinu 300--500 millj. kr. í endurmenntun starfsmanna sinna. Í þeirri skýrslu er sett fram sú spurning hvort því sé stjórnað nógu markvisst að þessi fjármunir séu nýttir á sem árangursríkastan hátt til þess að mæta þörfum stjórnsýslunnar.

Ég vil vekja athygli á því að þessi tillaga, þó að um sé að ræða stofnun stjórnsýsluskóla, þarf því ekki endilega að þýða aukin fjárútlát hjá ríkinu heldur fyrst og fremst að skipulag og hagræðing sé betri á allri endurmenntun í stjórnsýslunni, en tillagan gerir einmitt ráð fyrir því, með leyfi forseta, eins og hér er sagt:

,,... að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun stjórnsýsluskóla. Í því skyni verði skipuð nefnd sem móti markvissa endurmenntunarstefnu hjá ríki og sveitarfélögum um endurmenntun þeirra starfsmanna og nefndarmanna sem fara með opinbert vald til þess að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna. Í nefndinni verði fulltrúi fjármálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Endurmenntunar Háskóla Íslands og heildarsamtaka opinberra starfsmanna.

Niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en í upphafi haustþings 2004.``

Frú forseti. Það er mín skoðun að eftir að stjórnsýslulög og upplýsingalög tóku gildi sé mjög brýnt að boðið sé upp á námskeið fyrir starfsmenn stjórnsýslunnar um þau lög. Endurmenntun starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er ekki skipuleg og markviss á sviði stjórnsýsluréttar. Það er ekki í gildi markviss endurmenntunarstefna sem felur í sér að nýir starfsmenn sem fá það hlutverk að taka ákvarðanir um rétt og skyldu borgaranna séu sendir á grunnnámskeið til að læra almennar reglur stjórnsýsluréttarins.

Má vísa til þess að starfs- og endurmenntun er á vegum ýmissa stéttarfélaga, fræðslu forstöðumanna ríkisstofnana, Endurmenntunar Háskóla Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða, en það er fyrst og fremst undir forstöðumönnum stofnana í stjórnsýslunni komið hvort starfsmenn þeirra eða ráðuneytanna sæki slík námskeið, það er sem sagt ekki skylda.

Það er ástæða til þess að benda á það að umboðsmaður Alþingis hefur séð ástæðu til að fjalla um nauðsyn þess að auka fræðslu og þekkingu opinberra starfsmanna á stjórnsýslunni.

Í ársskýrslu sinni til Alþingis árið 1998 kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Á þessum vettvangi er því ástæða til að vekja máls á því hvort ekki sé fullt tilefni til þess að starfsfólk stjórnsýslunnar eigi í meira mæli en nú er kost á skipulegri fræðslu og endurmenntun um þær lagareglur sem stjórnsýslan starfar eftir. Þannig verður að telja að aukin fræðsla um réttarreglur stjórnsýsluréttarins, þá einkum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, sé best til þess fallin að bæta almennt úr þeim atriðum sem hafa orðið tilefni athugasemda af hálfu umboðsmanns Alþingis.``

Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis árið 2000 er þetta enn ítrekað en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég ítreka því þau sjónarmið sem ég hef áður sett fram um mikilvægi þess að auka fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar um þær réttarreglur sem gilda um starfshætti hennar. Ég bendi í því sambandi á að það þykir sjálfsagt að bjóða nýjum starfsmönnum hins opinbera upp á tölvunámskeið af margvíslegum toga og eigi viðkomandi að sinna bókhaldsstörfum eru slík sérhæfð námskeið í boði. Mér er ekki kunnugt um að boðið sé t.d. upp á námskeið fyrir nýja starfsmenn innan stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga um stjórnsýslulögin og aðrar réttarreglur stjórnsýsluréttarins en reglur þessar eru þó almennur grundvöllur þess hvernig standa ber að afgreiðslu mála innan stjórnsýslunnar. Ég tek líka fram að þarna er um að ræða fræðslu sem ekki á bara erindi til löglærðra starfsmanna heldur einnig annarra starfsmanna, og í vissum tilvikum nefndarmanna, sem koma að ákvarðanatöku í málum einstaklinga af hálfu stjórnvalda.``

Það er ljóst, herra forseti, að þessar ábendingar umboðsmanns Alþingis styðja mjög þá tillögu sem hér er flutt.

Virðulegur forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að mæla frekar fyrir þessari tillögu. Það er mikilvægt, verði þessi tillaga samþykkt, að þeir aðilar sem best þekkja til komi að mótun endurmenntunarstefnu opinberra starfsmanna. Í þessari tillögu er talað um Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála en meginmarkmiðið með Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands er að efla kennslu og rannsóknir í opinberri stjórnsýslu og standa fyrir umræðu um opinbera stefnumörkun og stjórnmál. Því er lagt til að auk fulltrúa fjmrn. komi að verkinu fulltrúi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, Endurmenntunar Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Ég tel auðvitað sjálfsagt, og á það er bent í grg. með þessari tillögu, að þessi nefnd leiti ráðgjafar hjá umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun.

Hæstv. forseti. Ég tel að það færi vel á því í tilefni af 10 ára afmæli stjórnsýslulaganna 1. janúar 2004 að Alþingi samþykki tillögu um mótun markvissrar endurmenntunarstefnu bæði hjá ríki og sveitarfélögum og undirbúin yrði stofnun stjórnsýsluskóla sem byggði starf sitt á þeirri stefnumótun.

Frú forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. Ég hef ekki mótað mér beint skoðun á því í hvaða nefnd þessi tillaga eigi að fara en vil áskilja mér rétt til þess að koma þeirri ábendingu minni á framfæri til hæstv. forseta eftir að ég hef hugsað málið.