Tannvernd barna og unglinga

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:03:10 (709)

2003-10-16 16:03:10# 130. lþ. 13.5 fundur 25. mál: #A tannvernd barna og unglinga# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um tannvernd barna og unglinga. Þáltill. er á þskj. 25 og er 25. mál þingsins. Meðflutningsmaður er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að tannvernd barna og unglinga til 18 ára aldurs verði efld. Sérstök tannvernd verði hluti ungbarnaverndar og skólaheilsugæslu og nái til allra barna og unglinga á aldrinum þriggja, sex, níu, tólf og fimmtán ára. Þessir árgangar fái skoðun og forvarnir hjá tannlækni án greiðslu og 90% endurgreiðsluhlutfall frá Tryggingastofnun ríkisins vegna almennra tannlækninga. Greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar til annarra aldurshópa verði 90% í skoðun, forvörnum og í almennum tannlækningum.``

Herra forseti. Ljóst er að þrátt fyrir að við höfum ekki mjög nýlega rannsókn á tannskemmdum barna og unglinga þá ber flestum tannlæknum saman um það að tannheilsu barna og unglinga sé að hraka. Það megi ekki dragast úr hömlu að grípa til aðgerða til þess að endurheimta fyrra tannheilbrigði og að finna þurfi ráð til þess að sem flest börn og unglingar njóti þeirrar tannlæknaþjónustu sem þekktist á árum áður og að forvörnum sé komið við á sem flestum sviðum. Nú er verið að undirbúa rannsókn á þessu sviði.

Heilbrigði munnholsins er öllum mönnum mikilvægt til að halda góðri heilsu. Grunnurinn að góðri tannheilsu er lagður strax í æsku með góðri tannhirðu, hollu mataræði og reglulegu eftirliti tannlæknis allt fram á fullorðinsár. Eitt af forgangsverkefnum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 er að lækka tíðni tannskemmda 12 ára barna. Árið 1985 voru skemmdar, tapaðar eða viðgerðar tennur hjá 12 ára börnum að meðaltali 6,6, þeim fækkaði í 3,4 árið 1991 og voru komnar niður í 1,5 árið 1996. Helstu ástæður þessa árangurs eru taldar vera bætt efnahagsleg staða fólks, góð tannlæknaþjónusta, notkun flúortannkrems, flúormeðferð, bætt munnhirða og hugarfarsbreyting almennings í tannheilsumálum.

Herra forseti. Nú er ekki hægt að segja að efnahagslegri stöðu fólks hafi almennt hrakað og að það sé ástæða þess að börn og unglingar fari ekki til tannlæknis en það er ýmislegt annað sem hefur breyst. Árið 1986 var hlutfall 12 ára barna án tannskemmda 3,6%, árið 1996 hafði þetta hlutfall hækkað í 47,5%, en margt bendir til þess að tannheilsu barna og unglinga hafi hrakað undanfarin ár eða frá því að síðasta landskönnun var gerð árið 1996, eins og ég nefndi fyrr, og það er mjög alvarleg þróun. Ástæður þessa eru óljósar en dregið hefur úr markvissum forvarnaraðgerðum heilbrigðisyfirvalda auk þess sem það er staðreynd að greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í tannvernd og tannviðgerðum barna og unglinga hefur ekki fylgt verðlagsþróun. Ósamræmi gætir milli ráðherragjaldskrár og raunkostnaðar við tannlækningar en endurgreiðsluhlutfall vegna tannlækninga er nú við u.þ.b. 50% í stað 75% eins og reglugerð kveður á um. Kostnaður við tannlækningar er orðinn of hár fyrir margar fjölskyldur og líklegt er að það sé ein af ástæðunum fyrir því að 35,9% barna 0--18 ára fóru ekki til tannlæknis á 18 mánaða tímabili frá 1. janúar 2001 til 30. júní 2002.

Til forvarna teljast nokkrir þættir. Það er reglulegt eftirlit, röntgenmyndataka, almenn fræðsla um tannvernd, hreinsun tanna, skorufyllur og flúormeðferð þeirra sem eiga á hættu að fá tannskemmdir. Endurgreiðsluhlutfall Tryggingastofnunar ríkisins miðast við samningsbundna gjaldskrá heilbrigðisráðuneytis og tannlækna, en hún féll úr gildi 1. október sl. Það er ekki til þess að bæta það ástand sem ríkt hefur auk þess sem reglurnar eru þannig að börn fá ekki endurgreiðslu nema einu sinni á ári, það má ekki líða skemmri tími á milli til að fá endurgreiðslu frá TR. En allar leiðbeiningar sem tannlæknar vinna eftir og byggja á rannsóknum sem gerðar hafa verið og til þess að ná sem bestum árangri er mælt með því að börn frá tveggja til þriggja ára aldri og fram að 15 ára aldri fari a.m.k. á hálfs árs fresti í þessa forvarnaraðgerð, þ.e. að láta hreinsa og fara yfir tennurnar og flúorbursta til þess að ná þeim árangri sem við vorum búin að ná upp úr 1985 þegar mjög kröftuglega var tekið á þessum málum og á þeim tíma þegar endurgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins var 100% fyrir þessar aðgerðir, en er komin niður í 50% af raunverulegum kostnaði og eingöngu fyrir aðgerðir einu sinni á ári. Þannig að þeir foreldrar sem vilja fylgja bestu ráðleggingum og fara með börn sín á hálfs árs fresti eins og mælt er með til þess að halda góðri tannheilsu, til þess að forðast tannskemmdir, fá ekki aðra vitjun endurgreidda. Auk þess hefur gjaldskrá Tryggingastofnunar og þess samnings sem verið hefur í gildi fram að þessu dregist svo aftur úr eða ekki fylgt launaþróun eða gjaldskrá tannlækna og ekki verðlagshækkunum þá er auðvitað ljóst að tannlæknakostnaður er farinn úr böndunum.

Ég tel að með því að binda tannlæknaskoðanir við ákveðna aldurshópa, þ.e. þá aldurshópa sem mönnum ber saman um að séu mikilvægir í tannþroska --- um þriggja ára aldur er mjög mikilvægt að börn byrji að fara til tannlæknis og að farið sé yfir tennurnar --- og með því að velja síðan þá aldurshópa sem fá sérstaka skólaheilsugæslu, ætti að vera hægur vandi að vísa þessum árgöngum til tannlæknis. Skólaheilsugæslan ber nokkra ábyrgð á að þessum börnum sé vísað til tannlæknis. Finna þarf eðlilegan farveg þarna á milli eða tilvísunarkerfi, hér er ekki verið að tala um fasta skólatannlækna eins og voru áður fyrr, heldur að tryggja það að börn fari til tannlæknis. Því miður er það svo að það eru líka til fjölskyldur sem ekki sinna þessum þætti. Með þessu væri hægt að halda nokkuð utan um það að þau börn sem ættu rétt á gjaldfrjálsri vitjun til tannlæknis í forvarnaskyni sæktu þá þjónustu.

Gerð hefur verið könnun á því hvernig börn skila sér til tannlæknis, hægt er að skoða það með greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins, og komið hefur í ljós að það er mjög misjafnt eftir landshlutum og sveitarfélögum hvernig börn skila sér til tannlæknis. Þegar við horfum á þessi svæði er ekki hægt að setja samasemmerki á milli tekna fjölskyldna á viðkomandi svæðum og því hvernig börn skila sér til tannlæknis heldur fer þetta eftir einhverju öðru. Það að á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík skuli vera hæsta hlutfallið sem ekki skilar sér til tannlæknis, en þar voru það yfir 20% barna frá 4--18 ára sem ekki skiluðu sér á þessu eins og hálfs árs tímabili, segir ekki eingöngu til um efnahag foreldra heldur líka að þarna vantar einhvern hvata til þess að foreldrarnir sjái til þess að börnin fari til tannlæknis. Þetta getur ekki eingöngu tengst efnahag.

Þar sem heilsugæslan er öflug og þar sem tannlæknar eru til staðar er þetta í þokkalegu lagi en þá verður hvort tveggja að vera til staðar. Þannig að þeir sem hafa komið að þessum málum finna að víða þarf úrbóta við og það finna foreldrar líka sem eiga börn á þessum aldri. Þetta er ein leið og ég vænti þess að hæstv. heilbr.- og trn. sem fær þetta mál til meðferðar, skoði það með mjög jákvæðum huga og finni leiðir til þess að ná aftur þeirri tannvernd og þjónustu við börn og unglinga sem var hér áður og að hægt verði að koma á reglubundinni þjónustu eins og mælt er með, á hálfs árs fresti, án þess að foreldrarnir borgi alfarið aðra vitjunina.

Hér mætti fara í miklu fleiri þætti en þetta á við hina almennu tannheilsuvernd. Það er mjög alvarlegt ástand hjá mörgum foreldrum sem eiga börn sem af einhverjum ástæðum hafa lélegar tennur eða þar sem einhverjir sjúkdómar eru meira en í tönnunum og fara verður því reglulega með börnin á allt að þriggja mánaða fresti til tannlæknis til þess að börnin haldi tönnum sínum til einhvers tíma. Þetta er kostnaður sem fer meira og minna yfir á fjölskylduna, þ.e. ef ekki er viðurkennd alvarleg sjúkdómsgreining hjá barni þannig að það fái fulla endurgreiðslu eins og börn með klofinn góm eða alvarlega meðfædda fæðingargalla. Ef tannheilsan er það léleg að sinna þurfi börnum miklu oftar en þetta þá fer kostnaðurinn alfarið yfir á fjölskylduna.

Þetta verðum við auðvitað að skoða og finna betri lausnir. Semja þarf við tannlækna og koma á nýjum samningi. Það er brýnt. Það þarf að endurskoða gjaldskrána og hafa forvarnir og fræðslu aftur í forgrunni, og hafa börnin aftur í forgrunni eins við höfðum miklu sterkar fyrir nokkrum árum.