Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:58:49 (716)

2003-10-16 16:58:49# 130. lþ. 13.6 fundur 153. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankastjórar) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í dag tók ég til máls í umræðu um þingmál sem hv. þm. úr öðrum flokki var að flytja. Ég lýsti því þar að ég væri ekki tilbúin til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við málið eins og það lægi fyrir en hér væri hreyft mikilvægu máli sem varðaði fjölskyldur, barnafjölskyldur, foreldra með ung börn og þess vegna væri mikilvægt að fá rökræðu um málið á Alþingi. Og það varð rökræða um málið á Alþingi og það var góð umræða sem varpaði ljósi á stöðu ungs barnafólks. Inn í umræðuna voru dregnar aðstæðurnar eins og þær eru í dag, hvað hefur verið að breytast, hvað við þurfum að lagfæra þó að ef til vill greindi á um leiðir til að lagfæra. Meira að segja bar svo við að stjórnarþingmenn brugðu sér inn í þessa umræðu og tóku þátt í rökræðunni og mér fannst það gott.

Hér er hreyft mjög stóru máli sem varðar þá stofnun sem við eigum að setja hæst á lista yfir stofnanir í okkar samfélagi, stofnun sem menn hafa verið sammála um að mikilvægt væri að hefði meira sjálfstæði en nokkrar aðrar stofnanir til að fara með og meta efnahagsmál og taka sjálfstæðar ákvarðanir og koma með ábendingar um hvað þurfi að gerast miðað við þróun efnahagsmála. Við erum öll sammála um matið á þessari stofnun, Seðlabanka Íslands.

Svo kemur hv. þm. sem hefur mikla þekkingu á starfi í þessari stofnun og sýnir okkur fram á afskaplega vafasöm vinnubrögð, eins og lýst er í þessu þingmáli og grg., við ráðningu þeirra sem mest eiga um að véla og halda utan um í þessari æðstu stofnun, eins og ég leyfi mér að lýsa henni. Vinnubrögð þar sem engar hæfniskröfur eru gerðar, vinnubrögð sem sýna að helmingaskiptaregla Framsfl. og Sjálfstfl. er í fullu gildi og rýrnar ekki og menn halda ótrauðir áfram á sömu braut og ávallt fyrr og vinnubrögð sem sýna fram á að vald þess sem úthlutar slíkri stöðu er óhemjulegt.

Nægir að vísa til einnar setningar efst á bls. 3 í grg.:

,,Formlegir aðilar að málinu eru bara tveir --- forsætisráðherra og sá sem ráðinn er til starfans.``

Þessi setning lýsir á afdráttarlausan hátt því sem er að gerast hjá okkur, virðingarleysinu fyrir eigin valdi og hversu sjálfsagt það þykir að úthluta því ,,bara milli okkar tveggja``.

Það sem veldur mér áhyggjum er viðhorfið til valdsins hjá þessari þjóð. Ég hef fullan skilning á því en það veldur mér áhyggjum. Fólk er búið að venjast því að ekkert breytist. Það eru sett ný lög, framsækin lög, það eru boðaðar breytingar, það er boðað að í framtíðinni skuli menn fara öðruvísi með en hingað til. Það er borið saman við stjórnsýslu annarra landa, það eru sett lög um opna stjórnsýslu eins og í öðrum löndum, það er farið að alþjóðasamningum, af því að menn ætla að hafa hlutina eins og í öðrum löndum, og menn tala um vald sitt með virðingu en framkvæma eins og engin virðing sé fyrir því borin. Fólk er þess vegna að venjast því að ekkert breytist og fólk er að sætta sig við að ríkisvaldið fari fram af geðþótta.

Það sem mér finnst verst í þessu máli, eins og það blasir við mér, og ég vil sérstaklega hrósa flutningsmanni fyrir hve greinargerðin dregur á einfaldan hátt fram stöðu þessa máls og fylgirit með þessari grg. í einfaldleika sínum, þegar fylgiskjölin eru skoðuð um seðlabankastjóra í löndum með verðbólgumarkmið og seðlabankastjóra víðs vegar um heiminn og peningamálaráð nokkurra Seðlabanka og þær upplýsingar sem að sjálfsögðu eru veittar á heimasíðum virtra stofnana úti í heimi, að það sem veldur enn meiri áhyggjum en viðhorfið til valdsins er kæruleysið í meðferð og umgengni við þá sem óska eftir því að farið sé vel með.

Á bls. 2 eru okkur sýndar þrjár spurningar sem eru bornar fram til þess sem fer með valdið:

,,Með hvaða hætti var gengið úr skugga um að sá sem skipaður var í embættið væri sá hæfasti sem völ var á?``

Ég tek undir orð flm., hér erum við ekki að tala um þann sem var ráðinn, við erum að tala um vinnubrögð.

,,Með hvaða hætti er jafnræðisreglunnar, sem er grundvallarregla í stjórnsýslu, gætt við skipan í embætti seðlabankastjóra nú þegar ekki er lengur skylt að auglýsa embættið?`` Og: ,,Hvaða hæfniskröfur voru lagðar til grundvallar við nýlega ráðningu í embætti seðlabankastjóra?``

Þá er svarið þetta að ,,það var gætt að almennum starfsgengisskilyrðum skv. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins``, sem eru svo einfaldar að maður þarf að hafa náð 18 ára aldri, vera við eðlilega geðheilsu og vera sjálfráða, almennar reglur til allra starfa, líka til þess að vera ráðinn á kassa í búð.

Þegar við erum að ræða þessi vinnubrögð og hvað við viljum hafa öðruvísi við val á hæfasta umsækjandanum til að sitja við störf í æðstu stofnuninni þá ber svo við að það er engin rökræða. Þess vegna tek ég undir með flutningsmanni og gagnrýni hennar á hvað hefur verið að gerast á síðustu árum í vinnubrögðum þessa þings, vegna þess að ég átti sæti á þessu þingi þegar hv. flm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat á Alþingi. Ég minnist þess að þá þegar var gagnrýni höfð uppi á ýmislegt í meðförum þingsins.

Ég minnist þess líka að hafa verið formaður í nefnd sem vann með þau stjórnarmál sem komu frá ráðherra. Þegar þau komu út úr nefnd sat formaður og þeir sem þá voru formenn nefnda í sal og tóku af prúðmennsku gagnrýni ef þeir brugðu sér frá í mat ef umræðan teygðist. Af því þeir settu sér þær skyldur á herðar að hafa tekist á hendur ábyrgð á þessum málaflokki, vinnslu málaflokks í nefnd, og með hvaða hætti því er skilað inn til þingsins til ákvarðanatöku.

Þess vegna er gagnrýnin sem kemur fram í upphafi flutnings þessa máls eðlileg og sjálfsögð og við ættum að taka hana til eftirbreytni og til umhugsunar og afgreiðslu og gera bragarbót á.

Það er óásættanlegt að ræða hér frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem meginefnið er tvennt, að ,,forsætisráðherra skipar formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn. Auglýst skal opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra og þar skal tekið fram hvort um sé að ræða stöðu formanns bankastjórnar. Bankastjórar skulu hafa reynslu og víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum.`` Þetta eru meginatriði þess sem hér er rætt. Og þegar málið kemur á dagskrá þingsins þarf enga rökræðu. Hér mætir enginn til rökræðunnar. Við erum hér ein, þingmenn Samfylkingarinnar, að reyna að bera það fram hversu þýðingarmikið það sé að hafa vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni, að það sé hafið yfir gagnrýni hvernig er með farið og sérstaklega að það sé hafið yfir gagnrýni þegar ráðið er í æðstu stöður þessarar stofnunar.

Af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur beðið um orðið tek ég það fram að þegar ég tek svo til orða, að við erum hér ein að ræða málið, þá er það að þeir sem hafa verið á mælendaskrá hingað til í þessu máli hafa verið þingmenn Samfylkingarinnar.

Þetta er fullkomlega óásættanlegt, virðulegi forseti. Forsn. hlýtur að þurfa að taka það upp hvort ekki eigi að gilda einhverjar reglur um viðveru í þingsal, hvort ekki á að fylgja því einhver ábyrgð að þingmanni sé falið að veita nefnd formennsku og hvort það megi ekki reikna með því að þegar borið er inn í þingið efnismikið --- þó að það láti lítið yfir sér --- mál sem þarf á umræðu og rökræðu að halda megi treysta því að sú rökræða fáist. Svona vinnubrögð eru jafnvond og þau sem við erum að gagnrýna í málinu sem hér er til umræðu.

Ég hvet til þess að þetta verði tekið upp, virðulegi forseti, og gagnrýni harkalega hvort tveggja, það sem er tilgreint í þessu þingmáli og vinnubrögðin hér í þinginu sem endurspeglast á þessum eftirmiðdegi.