Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:43:08 (721)

2003-10-17 10:43:08# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hér eigi að fara fram síðar í dag utandagskrárumræða um dóm Hæstaréttar í gær en ástæða þess að ég kem hér upp er sú að ég hef í störfum mínum í fjárln. Alþingis leitað eftir upplýsingum sem ég hef talið vera nauðsynlegar fyrir mig sem alþingismann og sem fjárlaganefndarmann. Það eru fjárlagabeiðnir lögreglunnar í Reykjavík --- en Reykjavík er kjördæmi mitt --- og fjárlagabeiðni Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra sömuleiðis.

Á fundi fjárln. óskaði ég eftir þessu og send voru erindi til hlutaðeigandi ráðuneyta til að óska eftir þessum upplýsingum. Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í viðkomandi ráðuneytum hafa nú bréflega neitað mér um þessar upplýsingar með vísan til úrskurðar upplýsinganefndar í máli Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún leitaði sem almennur borgari eftir fjárlagabeiðnum lögreglunnar í Reykjavík.

Nú má út af fyrir sig deila um þann úrskurð upplýsinganefndar og hvort hann standist fyrir lögum, hvort almennir borgarar eigi ekki að eiga aðgang að þessum upplýsingum, en ég taldi, virðulegur forseti, að sem alþingismaður, sem kjörinn fulltrúi fólksins í Reykjavík og þar að auki sem kjörinn fulltrúi Alþingis í fjárln., hlyti ég að eiga aðgang að öðrum eins grundvallarupplýsingum og mati sérfræðinga okkar í Reykjavík á þörfum fatlaðra og mati lögreglunnar í Reykjavík á þörfum lögreglunnar til þess að tryggja öryggi borgaranna í Reykjavík. Ég tel, virðulegur forseti, að þetta mál varði virðingu þingsins og virðingu fjárln. Fjárln. felldi nú í morgun þá beiðni mína að nefndin sem heild óskaði eftir þessum upplýsingum. Ég skil ekki, virðulegur forseti, hvernig hægt er að vinna að fjárlagagerð í Alþingi ef fjárlaganefndarmenn hafa ekki aðgang að grundvallarupplýsingum. Ég mun, virðulegur forseti, skjóta þessari ákvörðun og þessari synjun til forseta Alþingis og vonast til þess að hann beiti sér fyrir því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar fulltrúum Alþingis í fjárln. og vonast til þess að ekki þurfi til þess að koma að ég þurfi að leita eftir rétti mínum sem almennur borgari, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á sínum tíma varð að gera því að þing var ekki að störfum, heldur geti ég í krafti starfs míns sem alþingismanns fengið aðgang að jafnsjálfsögðum upplýsingum og óskum opinberra stofnana um fjárstuðning Alþingis Íslendinga.