Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:50:21 (725)

2003-10-17 10:50:21# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Við upplifum það æ ofan í æ hér á Alþingi að mál eru að þróast á þann veg að Alþingi og alþingismenn eru farnir að lúta framkvæmdarvaldinu og beygja sig fyrir því í hvívetna. Við stöndum einmitt nú frammi fyrir því í meðferð ákveðins máls gagnvart fjárln.

Það er rétt að halda því til haga og gera sér grein fyrir því að framkvæmdarvaldið leggur fjárlagafrv. inn til þingsins og eftir 1. umr. í þinginu um það fer það til fjárln. til frekari úrvinnslu og hún ber ábyrgð á því að skila því síðan aftur inn í þingið.

Fjárln. á að hafa fullan aðgang að öllum þeim upplýsingum sem liggja inni í viðkomandi fagráðuneyti og einstökum ráðuneytum og hafa áhrif á vinnu og niðurstöðutölur í fjárlagafrv. þegar það verður lagt fram aftur til 2. umr. Þessi valdbeiting hér er bara til þess að þjóna valdinu. Það eru engir leyndarhagsmunir þarna til, og eiga heldur ekki að vera. Þingið og fjárln. eiga að eiga fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem liggja inni í viðkomandi ráðuneytum og lúta að fjárlagagerðinni. Þess vegna, virðulegi forseti, er hér bara verið að þóknast valdbeitingunni en ekki að styðja að almennilegri lýðræðislegri vinnu í þinginu.