Varnir gegn mengun hafs og stranda

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:06:17 (736)

2003-10-17 11:06:17# 130. lþ. 14.8 fundur 162. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um verndun hafs og stranda. Á síðasta þingi mælti ég fyrir frv. þessu en það hlaut ekki afgreiðslu og er það því lagt fram á nýjan leik. Frumvarpið var rætt ítarlega í umhvn. og sent til umsagnar. Fjölmargar umsagnir bárust til nefndarinnar sem farið var yfir með starfsmönnum ráðuneytisins en einkum vegna þess hversu snemma þingi lauk síðasta vor vannst ekki tími til að ljúka málinu.

Frumvarpið er nú lagt fram nokkuð breytt, m.a. með hliðsjón af þeim umræðum sem fram fóru í umhverfisnefnd að fengnum áðurnefndum umsögnum. Að meginstofni er frumvarpið samið af nefnd sem skipuð var af þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundi Bjarnasyni, til að endurskoða lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með hliðsjón af reynslu liðinna ára og alþjóðlegum samningum er varða mengun sjávar og varnir og viðbrögð gegn mengun sjávar.

Nefndin hóf störf í ársbyrjun 1999 og skilaði tillögum til umhvrh. í september 2001.

Í athugasemdum við lagafrv. er að finna ítarlega umfjöllun um lög um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986, svo og önnur lög er varða málefnið. Auk þess eru ítarlegar upplýsingar um alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda þessi atriði hér frekar en vísa til athugasemda með frv.

Ég mun nú gera, virðulegur forseti, grein fyrir helstu nýmælum frv.

Í 2. gr. er fjallað um gildissvið laganna og fram kemur að um er að ræða heildarlög sem gilda að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki um hlutaðeigandi atriði. Sérlög sem hér koma til greina eru t.d. lög um geislavarnir, lög um Siglingastofnun Íslands og siglingalög. Gert er ráð fyrir að lögin gildi einnig um íslensk skip utan íslenskrar mengunarlögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum. Þannig mundu lögin ná yfir íslensk fiskiskip sem veiða utan íslenskrar mengunarlögsögu svo framarlega sem um er að ræða skip sem sigla undir íslenskum fána. Ákvæðið er sett til að tryggja með óyggjandi hætti að íslensk skip sem eru að störfum utan íslenskrar mengunarlögsögu fylgi ákvæðum alþjóðasamninga, svo sem MARPOL 73/78 og Montreal-bókuninni um verndun ósonlagsins.

Í frv. er að finna það nýmæli að fjallað er annars vegar almennt um verndun hafs og stranda og hins vegar í sérákvæðum um varnir og viðbrögð við bráðamengun sjávar. Þannig er því í reynd skipt upp í tvo meginframkvæmdakafla enda viðbrögð og varnir með ólíkum hætti eftir því hvort um er að ræða mengun sem kallar á skjót og oft tafarlaus viðbrögð eða aðra mengun.

Í frv. er að finna fleiri og ítarlegri skilgreiningar á orðum og orðasamböndum en eru í gildandi lögum. Brýnt er að skilgreiningar á orðum og hugtökum séu skýrar þar sem framkvæmdin, svo sem efni reglugerða, byggist mjög á þeim.

Lagt er til að ábyrgð á framkvæmd laganna verði í höndum Umhverfisstofnunar undir yfirstjórn umhvrh. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að fara með eftirlit með framkvæmdinni að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögum. Umhverfisstofnun er veitt heimild til að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunarstofum eða Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna í umboði stofnunarinnar.

Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn hæstv. dómsmrh., annast hins vegar eftirlit með hafsvæðum umhverfis landið. Hvílir sú skylda á Landhelgisgæslunni að tilkynna Umhverfisstofnun ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á að um mengun hafs og stranda sé að ræða.

Siglingastofnun Íslands, undir yfirstjórn hæstv. samgrh., annast svo eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna.

Eins og ég hef nefnt á undan er í frv. að finna nýmæli varðandi vöktun hafs og stranda. Í 4. gr. er það skilgreint sem hlutverk Umhverfisstofnunar að sjá um vöktun hafs og stranda og er það í samræmi við aðrar skyldur Umhverfisstofnunar til vöktunar, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en með þessum hætti ættu allir þættir vöktunar að vera komnir undir eina stofnun og eina stjórn.

Í 6. gr. frv. eru tilgreindar reglugerðarheimildir og er rétt að benda á að þar er m.a. gerð krafa um að notuð verði besta fáanlega tækni við mengunarvarnir og stuðst við bestu umhverfisvenjur.

Í 9. gr. kemur fram það nýmæli að lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna skuli háð leyfi Umhverfisstofnunar sem hafi þar samráð við sjútvrn., Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnun Íslands, en engin sérstök leyfi þarf í dag til að leggja sæstrengi eða neðansjávarleiðslur hér á landi.

Eins og áður hefur komið fram eru helstu nýmælin bundin við svokallaða bráðamengun, en bráðamengun er sú mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra hreinsunaraðgerða. Í tengslum við sérákvæði um bráðamengun er lagt til lögin geymi ítarleg ákvæði um íhlutun í slíkum tilvikum. Lagt er til að Landhelgisgæslan geti gripið til íhlutunar og gert þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu við Ísland til að koma í veg fyrir eða draga úr bráðamengun eða hættu á bráðamengun eftir að óhapp hefur orðið á sjó og hafi um það samráð við Umhverfisstofnun og, ef við á, hafnarstjóra.

Lagt er til að þegar mengun hefur orðið á hafi úti skuli Umhverfisstofnun grípa til viðeigandi aðgerða. Þegar hætta er talin á mengun af strandi skips eða frá starfsemi á landi eða á hafi skal stofnunin gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á mengun.

Í 16. gr. er að finna nýmæli sem tengist bráðamengun. Þar er lagt til að mengunarvaldur verði ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans, sé um að ræða mengun af völdum atvinnurekstrar frá landi eða flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum. Þeir sem bera ábyrgð á mengun skulu samkvæmt þessu taka ábyrgðartryggingu að upphæð allt að 1 millj. SDR, eða rúmar 100 millj. ísl. kr. Takmarkast hin hlutlæga ábyrgð við þá upphæð. Um skaðabótaábyrgð umfram þessi mörk fer eftir almennum reglum skaðabótaréttarins.

Um nánari framkvæmd er varðar vátrygginguna og gildissvið fer samkvæmt reglugerð.

Gerð er grein fyrir því hvað átt er við með atvinnurekstri sem fellur undir það að vera atvinnurekstur á landi sem getur valdið mengun hafs og stranda. Þar er vísað sérstaklega til fskj. I í frv., en slíkur atvinnurekstur er allur háður starfsleyfum skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og er talinn upp í fylgiskjali með þeim lögum.

Rétt er að taka fram að ábyrgð samkvæmt þessari grein sætir takmörkunum í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að. Í slíkum samningum er oft að finna hámark sem greiða skal fyrir í einstökum tilvikum eða á tilteknu tímabili, svo sem almanaksári, auk þess sem í alþjóðasamningunum er að finna ákvæði um greiðslur úr sjóðum á því sem umfram er.

Nái þau ákvæði fram að ganga sem ég hef fjallað um hér á undan, þ.e. íhlutun vegna bráðamengunar og vátryggingar sem þeim tengjast, væri góðum áfanga náð í umhverfisrétti hér á landi þar sem í fyrsta sinn yrði kveðið á um hlutlæga ábyrgð, þ.e. ábyrgð án sakar og töku vátrygginga í íslenskum umhverfisrétti.

Í 19. gr. er kveðið á um að mengunarvarnabúnaður skuli vera á hverju svæði undir umsjá svæðisráða og skal vera sérstakur umsjónarmaður með hverjum búnaði. Umhverfisstofnun skal auk þess ráða yfir flytjanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við óhöpp innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Enn fremur skal stofnunin sjá um að koma upp nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.

Í 20. gr. er að finna nýmæli um siglingaleiðir og strönduð skip. Þar er lagt til að samgrh., að höfðu samráði við hæstv. umhvrh., dómsmrh. og sjútvrh., geti sett reglugerð um siglingu skipa innan mengunarlögsögu Íslands sem flytja olíu eða hættulegan varning í farmrými og tönkum.

Undanfarin ár hefur verið töluverð umræða um hvernig skuli haga ákvörðun um siglingaleiðir þegar í hlut eiga skip sem flytja olíu og annan hættulegan varning. Hefur nefnd á vegum samgrn. skilað tillögum um hvernig siglingaleiðum skuli háttað en engin ákvæði er að finna í lögunum um hver skuli taka ákvörðun um siglingaleiðir, sé þess talin þörf. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt og samgönguráðherra taki slíka ákvörðun enda heyra siglingalög og lög um skip undir samgrn.

Í 22. gr. eru nýmæli um þvingunarúrræði sem Umhverfisstofnun getur beitt til að knýja á um framkvæmd laganna. Er þetta í samræmi við þvingunarúrræði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en refsiviðurlög laganna hafa verið löguð að nýrri löggjöf á sviði umhverfismála. Það er í samræmi við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 122/1999, en í þeim var í fyrsta skipti tekið á umhverfisafbrotum í almennri hegningarlöggjöf hér á landi. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2004 og samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða er þó lagt til að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna um móttökuaðstöðu fyrir skolp frá skipum taki gildi aðeins seinna eða 24. sept. 2004, en það er í samræmi við gildistöku alþjóðlegra skuldbindinga um það efni.

Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða getur ráðherra til ársins 2010 veitt undanþágur frá einstaka ákvæðum laganna þar sem sérstaklega stendur á, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og heilbrn. Er þetta gert til að veita ákveðna aðlögun að einstökum ákvæðum laganna þar sem þess er þörf.

Í ákvæði III til bráðabirgða er lagt til að umhvrh., í samvinnu við Umhverfisstofnun, samgönguráðherra, Hafnasamband sveitarfélaga og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, geri áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir. Skal sú áætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 2005 og koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2006. Hreinsun skal lokið fyrir árslok 2008.

Loks er lagt til að umhvrh. skipi starfshóp til að undirbúa gildistöku laganna sem í sitji, auk fulltrúa umhvrh., fulltrúi samgrh., fulltrúi Umhverfisstofnunar, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir helstu nýmæli og breytingar sem fólgnar eru í frv. til laga um verndun hafs og stranda og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.