Varnir gegn mengun hafs og stranda

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:17:48 (738)

2003-10-17 11:17:48# 130. lþ. 14.8 fundur 162. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það sem hér er til umræðu, frv. til laga um verndun hafs og stranda, er ekki mál mikilla átaka í þingsalnum en það er mál mikilla hagsmuna. Í því felast miklir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að vel takist til um löggjöf um verndun hafsins og strandanna. Eins og kom fram í framsögu hæstv. umhvrh. eru meginatriðin varp efna í hafið, ábyrgð á mengunartjóni og viðbúnaður vegna mengunaróhappa, um tilkynningarskylduna og um alla losun eða varp sem lögin ná til innan efnahagslögsögu landsins og svo um heimildir til umhvrh. að bregðast við.

Það er mikilvægt í þessu efni að vel hefur verið farið yfir málið í hv. umhvn. Alþingis og eins og kom fram hjá ráðherra þá hefur verið tekið tillit til margra ábendinga eða athugasemda sem komu fram við þá yfirferð. Málið er sem sagt búið að vera í undirbúningi frá því 1999 og þetta er í þriðja sinn sem það kemur hingað fyrir Alþingi. Það er mjög mikilvægt --- og þetta er það sem við erum alltaf að tala um --- að í stórum og ég tala nú ekki um í flóknum málum sé gefinn tími til yfirferðar á þingmálinu þannig að ljóst sé að þegar löggjöfin er sett þá hafi þeir sem um hana fjölluðu tilfinningu fyrir því að þeir viti nokkurn veginn hvað þeir voru að gera og til hvers þetta tæki verði notað sem lögin eru, og að þeir séu sáttir við vinnubrögðin. Ég held að mér sé óhætt að segja að það hafi verið góð vinnubrögð að gefa sér tíma til að fara yfir þetta mál í umhvn., taka athugasemdir til greina og setja málið fram á ný. Auðvitað förum við í umhvn. yfir málið í smáatriðum, þ.e. hvað bent var á, að hvaða leyti tillit var tekið til þess og hvort við erum sammála því.

Virðulegi forseti. Mikil breyting hefur orðið á umgengni við hafið. Það skilar sér bæði varðandi ástand fjörunnar auk þess sem allt önnur viðhorf eru líka orðin til fjörunnar og hafsins. Það er allt öðruvísi að fara um strandir og fjörur í dag en fyrir tíu árum og fyrir tuttugu árum. Settar hafa verið reglur um að koma með allt sorp í land og löggjöf um förgun báta og skipa sem áður fyrr þótti sjálfsagt að draga bara út á haf og sökkva þar. Þetta skiptir miklu máli.

Það er mín skoðun að alþjóðasamstarf sé hvergi þýðingarmeira en í umhverfismálunum, þ.e. varðandi loft og haf. Áhrif umgengni okkar við náttúruna skila sér út í andrúmsloftið og út í hafið. Það er erfitt að snúa til baka þegar mikill skaði er skeður í þessum efnum. Þess vegna er verndun hafsins óhemjustórt mál.

Auðvitað er það sem við erum að fjalla um hér ekkert endanlegt. Það þarf í miklu ríkari mæli að skoða hafið og á hverju þarf að taka varðandi hafið.

Í þessari viku var haldið tveggja daga umhverfisþing. Vegna þess að við þingmenn í umræðum okkar í ræðustól Alþingis erum oftast með gagnrýni uppi í viðræðu okkar við hæstv. ráðherra eða alla vega gagnrýnar ábendingar þá vil ég nota þetta tækifæri til að gefa hæstv. umhvrh. prik fyrir góðan og vandaðan undirbúning að umhverfisþingi og fyrir umhverfisþingið sjálft sem var geysilega áhugavert fyrir okkur sem vinnum að umhverfismálum að sækja og gífurlega þýðingarmikið fyrir samvinnu allra þeirra sem á vettvangi ríkisvaldsins og í frjálsum félagasamtökum vinna að þessum málum. Ég er mjög ánægð með þingið. Auðvitað er hægt að koma með ábendingar. Auðvitað gagnrýndum við það að ekki væri enn þá meira svigrúm gefið fyrir frjáls félagasamtök og þátttöku þeirra. En þetta eru hlutir sem er hægt að laga. Nú er búið að lögbinda að slíkt umhverfisþing verði haldið og ég bara ætlast til þess og treysti því að þannig hlutir verði lagaðir. En þarna átti sér stað góð orðræða og samræða og samráð um þessi mikilvægu mál.

Við erum fjalla um hafið en ég ætla ekki að fara yfir þau tæknilegu atriði sem felast í greinum frv. hér. Ég er ekki til þess bær af því að ég hef ekki fengið nægileg tækifæri til að fjalla um það. Hins vegar ætla ég að tala um það sem tengist þessari vinnu sem er svo mikilvæg.

Ég ætla að vekja athygli á orðum Davids Andersons frá Kanada í ræðu hans á þinginu. Þar var hann með varnaðarorð varðandi ástand hafsins og fór orðum um sjófugla og sjávardýr sem við þurfum að passa upp á. Hann nefndi að PCB er orðið fimm sinnum meira en æskilegt er á ákveðnum hafsvæðum. Það er farið að hafa áhrif á brjóstamjólk á norðurslóð og farið að skila sér inn í lífríkið. Sérstaklega hefur þetta vakið athygli manna í sambandi við rannsóknir á sel sem er aðalfæðuuppistaða fyrir ísbirni sem nú eru verða tvíkynja eða kynlausir og er það mjög alvarlegt fyrir stofninn.

Það er alveg sjálfsagt að við séum mjög meðvituð um þessi mál og um að hafið á okkar svæði er gífurlega viðkvæmt. Stundum höldum við að efni sem fara út í loft eða haf á suðurhveli jarðar skipti okkur ekki svo miklu máli. En það er ekki þannig. Það er þannig að hin ýmsu efni sem fara út í andrúmsloftið á suðurhveli jarðar fara upp í háloftin og niður í kuldaskilunum og í hafið og valda þar ómældum skaða. David Anderson vísaði til þess að vinna Íslands og Noregs væri mikilvæg fyrir ástandið í hafinu og því ætla ég líka enn á ný að benda á hversu heimskautasamstarf, bæði á ráðherravæng í löndunum frá Kanada til Rússlands og jafnframt þingmannasambandið, er orðið mikilvægt.

Ég ætla líka að leyfa mér, þó að ég hafi gert það hér á Alþingi áður, að nefna væntanlega skýrslu Roberts Corells. Hann mun skila sinni miklu skýrslu á næsta ári. Hann hefur í ræðum sínum upplýst að breytingar í náttúrunni á norðursvæði, þ.e. lofti, umhverfi og hafi, sýni sig að vera tíu sinnum hraðari eða sem sagt að það sem gerist á tíu árum hjá okkur gerist á 25 árum annars staðar á jörðinni. Þess vegna eru rannsóknir á norðurhveli mikilvægar til að segja fyrir um hvaða breytingar verða í umhverfismálum á jörðinni allri. Eins er það alvarlegt fyrir okkur hvað breytingar gerast hratt. Ísar eru að þiðna. Gerð hafsins er að breytast og mikilvægir hafstraumar geta breyst með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þetta er afskaplega mikilvægt og hlýtur að blandast inn í umræðu okkar um umgengnina við hafið.

Ég tók þátt í nefndarstarfi á umhverfisþinginu sem ég var að hæla hæstv. umhvrh. fyrir. Í þeim hópi var þátttakendum ætlað að horfa til framtíðar. Fjöldi fólks tók þátt í umræðunni þar og hún var gagnleg. Ég vænti þess að hún verði til gagns fyrir ráðherrann í vinnunni áfram vegna þess að mjög ítarleg fundargerð var tekin saman um það sem fram kom í nefndinni.

Ein af þremur meginspurningum sem við beindum sjónum að í nefndinni þegar við horfðum til framtíðar, var hvernig skynsamlegt er að taka á náttúruvernd í hafinu. Þá erum við að tala um að sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins sé höfð að leiðarljósi við fiskveiðar, að náttúruvernd í hafinu eigi að þjóna þríþættu hlutverki, þ.e. að greina og vernda verðmætustu svæðin við strönd Íslands með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni, að auðvelda rannsóknir á lífríki hafsins og fá samanburð á friðuðum og nýttum svæðum og styðja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Í umræðunni um hvernig megi stíga fyrstu skrefin í náttúruvernd í hafinu var það nefnt meðal annars að gagnlegt gæti verið að taka saman yfirlit yfir reynslu annarra þjóða af verndarsvæðum í hafinu, að greina þau svæði við strendur Íslands sem búa yfir mestri líffræðilegri fjölbreytni, að kortleggja hvernig tímabundinni lokun veiðisvæða er háttað og að þróa aðferðir til að meta verndargildi og svo eru auðvitað víðtækar samræður og samráð við samtök í sjávarútvegi nauðsynlegar. Miðað við þessi meginsjónarmið sem ég bendi á hlýt ég að vekja athygli á því máli sem er næst á dagskrá þessa fundar. Það er um kortlagningu á náttúru Íslands. Það er grundvallaratriði til að geta viðhaft góð vinnubrögð í þeim mikilvæga málaflokki. Hér erum við í raun að tala um það sama. Við erum að tala um kortlagningu og hvernig sé hægt að vinna að þessum málum.

Í þessum starfshópi var líka spurt hvernig væri háttað samstarfi umhvrn. og sjútvrn. í þessum mikilvæga málaflokki um verndun hafsins og nýtingu hafsins, hvernig væri tekið á árekstrum sem óhjákvæmilega verða hjá t.d. ráðuneyti þar sem meginhlutverkið er nýting hafsins, nýting sjávardýra. Vísa ég þá til þess sem David Anderson sagði í framsögu sinni sem gestur þingsins, að 90 millj. tonna af fiski og öðrum sjávardýrum séu árlega sótt í hafið. Hagsmunirnir verða annars vegar mikil nýting en hins vegar ábyrgð umhvrh. og umhvrn. á verndun hafsins. Í nefndinni var lögð gífurleg áhersla á að þarna næðist góð samvinna og að í sjútvrn. væri hlustað á sjónarmið umhvrn. Talað var um íslenska hafsbotninn, hvað leyndist í botninum og hvað leyndist í raun í hinum myrku djúpum.

[11:30]

Einnig var talað um að úttekt á lífríkinu mundi ráða mjög miklu um verndun í hafinu og að nú væri, eins og við sjáum í þessu frv. sem er til umræðu, mest rætt um mengunarvarnir annars vegar og nýtingu stofna hins vegar og fæðusvæði sjófuglanna. Rannsóknir voru nefndar aftur og aftur og að rannsóknagögn vanti til að vinna góða áætlun. Þetta voru meginskilaboðin í nefndinni frá þeim aðilum sem hafa komið að vinnu við þessi mál: Rannsóknir, ítarleg gögn til að vinna áætlun og að leggja höfuðáherslu á að setja peninga í kortagerð og kortlagningu.

Af því að á þessum fundi var líka verið að kynna vinnubrögð við gerð rammaáætlunar um virkjanir, jarðhita og nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem var mjög áhugavert innlegg, þá var líka talað um að aðferðafræðin sem menn hafa komið sér niður á í mælingum við þessa mikilvægu vinnu gæti e.t.v. nýst þegar farið yrði að reyna að vinna með hafið og verðmætin þar og hvernig skuli um halda. Það var einmitt bent á Breiðafjörð --- auðvitað er fólk hrætt þegar talað er um verndun og friðun, hvað felist í því. Er verið að fara að vernda og friða allt þannig að ekki verði einu sinni unnt fyrir okkur að nýta hafið eða landið eins og átök hafa verið um? Það er ekki verið að tala um það og ekki verið tala um að friðunin sé endilega andstaða við nýtingu og Breiðafjörður nefndur sem dæmi um mikla friðun en líka mikla nýtingu.

Það kom mjög vel fram í þessari umræðu hversu mikilvægir alþjóðasamningar eru og þátttaka okkar í þeim, en að alþjóðasamningarnir eigi fyrst og fremst að fara fram um samvinnu á stóru hafsvæðunum og það er afskaplega mikilvægt, en að ábyrgðin liggi hjá okkur sjálfum, í löndunum, um hvaða aðgerðir og hvaða skoðun og rannsóknir farið er í innan lögsögu okkar. Þá erum við náttúrlega ekki að vísa til alþjóðasamninga eins og þeirra sem er undirstaða þess frv. sem við ræðum, þar sem er verið að koma sér saman um hvernig reglur skuli gilda um mengun m.a. í hafinu, heldur kannski miklu frekar það sem ég hef gert að umtalsefni í framhaldi af því.

Þetta, virðulegi forseti, vildi ég leyfa mér að koma inn á í umræðunni um frv. til laga um verndun hafs og stranda. Ég mun leggja mig fram um að skoða þetta mál í umhvn. og hvet hæstv. umhvrh. til að halda vel á málum og gera allt sem henni er fært til að hefja þá vinnu sem ég hef drepið á og kom svo skýrt fram í nefndinni og að taka undir ábendingar Samf. um kortlagningu landsins og kortlagningu hafsins að því marki sem það er unnt. Það kostar peninga, en þetta er afar mikilvægt.