Varnir gegn mengun hafs og stranda

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:34:34 (739)

2003-10-17 11:34:34# 130. lþ. 14.8 fundur 162. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna um það frv. sem er til umfjöllunar. Ég tók eftir að ekki var farið mikið í tækniatriði frv. enda munu menn skoða það í nefnd en sum atriði í því eru nokkuð flókin. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem er nýr liðsmaður í umhvn. fór nokkrum orðum um almennt mikilvægi verndunar hafsins og mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Ég vil taka undir það.

Það hefur verið ein megináhersla okkar í umhvrn. að vera í alþjóðasamstarfi um verndun hafsins. Það hefur verið efst á forgangslista okkar. Að mínu mati hefur tekist vel til. Við náðum fyrir stuttu í gegn alþjóðasamningi um bann við notkun og losun tólf þrávirkra lífrænna efna í hafið og hv. þm. nefndi einmitt eitt af þessum efnum, þ.e. PCB. Þetta eru efni eins og díoxín, DDT og alls kyns eiturefni. Sem betur fer náðist þessi alþjóðasamningur og við vonum að slík efni fari lækkandi í hafinu á næstunni.

Það er ein ógn sem steðjar að núna sem við þurfum að auka alþjóðasamstarfið um og það er kvikasilfursmengun. Hjá UNEP, umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, er nýkomin út alþjóðaskýrsla sem sýnir að kvikasilfursmengun er að aukast og kom það nákvæmlega fram hjá hv. þm. hér áðan af hverju það er en það er vegna þess að mengun er að koma frá suðri og hingað upp á norðurskautssvæðið og kringum pólinn. Það er nú svo merkilegt með kvikasilfur að það losnar við ófullkominn bruna á kolum og aðallega kolum sem eru brennd í Afríku og Asíu og það tekur einungis sjö daga fyrir loftmassann að skila sér t.d. frá Spáni til norðurpólsins, þannig að þetta mengaða loft getur ferðast með ótrúlega miklum hraða. En kvikasilfrið safnast upp á norðurslóðum af því að hér er kuldi og þess vegna gufar það ekki upp aftur eða heldur neitt áfram. Það safnast fyrir í kuldagildru kringum norðurheimskautið og þar losnar það út og ástand skapast sem kallað er ,,polar sunrise phenomena`` og gerist á vorin þegar hitna fer á pólnum og á norðurskautssvæðinu. Þá fellur kvikasilfrið allt út og safnast upp í lífríkinu, einmitt þegar lífríkið er að vakna til lífsins og er í mikilli virkni. Þetta er vaxandi vandamál sem við þurfum auðvitað að vinna á alþjóðlegum vettvangi að takast á við, sérstaklega þau lönd sem hafa svona mikilla hagsmuna að gæta varðandi mengun hafsins og sölu á hreinum sjávarafurðum.

Einnig var hérna minnst á skýrsluna sem Bob Corell og fleiri eru að vinna fyrir norðurskautsráðið, svokallaða ACIA-skýrslu, sem gengur út á það að taka saman gögn um hvernig loftslagsbreytingar geti hugsanlega haft áhrif á hafsvæðin á norðlægum slóðum. Ég lít til þess með mikilli tilhlökkun þegar við fáum þá skýrslu af því ég tel að hún verði mjög þýðingarmikið gagn fyrir okkur til að átta okkur á því til hvaða aðgerða við getum gripið af því að á norðurskautinu virðist allt gerast með tvöföldum hraða í loftslagsmálunum miðað við það sem gerist hnattrænt.

Í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur var einnig minnst á samstarf milli umhvrn. og sjútvrn. sem laut að verndun í hafi. Það samstarf er með miklum ágætum og nefnd er að vinna að því núna hvernig við getum aukið vernd í hafi til framtíðar hér við strendur okkar. Ég veit líka að Hafrannsóknastofnun er að rannsaka botninn við Íslandsstrendur. Verið er að kortleggja t.d. kóralrif og ég hef kynnt mér sérstaklega hvað Norðmenn hafa gert. Þeir hafa friðað nokkur kóralsvæði í kringum Noreg og þeim hefur tekist að gera það í mikilli sátt við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Og mér heyrist á þeim hagsmunaaðilum í sjávarútvegi sem ég a.m.k. hef heyrt í að til greina kæmi að slíkt yrði gert hér og ég fagna því mjög.

Í náttúruverndaráætluninni sem við fjölluðum um á umhverfisþingi --- og ég vil sérstaklega þakka hv. þm. fyrir að gefa ráðherra prik fyrir það þing, það tókst mjög vel --- er ekkert svæði í hafi, og það er alveg rétt að við þurfum að taka á því í framtíðinni. En einhvers staðar verðum við að byrja. Við völdum 14 svæði en það kemur að sjálfsögðu að því að við tökum svæði í hafi, það er eðlilegt og brýnt að gera það.

Að öðru leyti vil ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið og vona að málið fái góða skoðun í umhvn. þannig að það geti orðið að lögum af því að vel var farið yfir það á síðasta þingi.