Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:40:38 (740)

2003-10-17 11:40:38# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um öflun grunngagna um náttúru landsins um gerð náttúrufarskorta. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jóhann Ársælsson. Þessi tillaga var lögð fram á 127. og 128. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er nú endurflutt að mestu leyti óbreytt.

Tillögugreinin fjallar um það að Alþingi álykti að fela umhvrh. að láta skrá náttúru landsins, flokka hana og kortleggja á samræmdan hátt og með hliðsjón af þeirri aðferðafræði sem þróuð hefur verið á vegum alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að og skyldra alþjóðastofnana. Jafnframt er kveðið á um í ályktunargreininni að kröfur sem gerðar eru til náttúrufarsgagna við gerð skipulagsáætlana við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda verði skilgreindar á skýran hátt, þ.e. lágmarksgögn og lágmarksgæði gagnanna og ákveðið úr hvaða náttúrufarsgögnum skuli vinna á kostnað ríkisins og hvaða aðgangur skuli vera að upplýsingunum.

Herra forseti. Þetta mál var sent út til umsagnar á 128. löggjafarþingi og fjölmargar umsagnir bárust um málið, frá Vegagerðinni, Veðurstofu Íslands, jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands, Landmælingum Íslands, Skipulagsstofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Landvernd, Félagi íslenskra náttúrufræðinga og Umhverfisstofnun. Ég ætla ekki að rekja efni umsagnanna að öðru leyti en því að þær voru almennt séð mjög jákvæðar og virðist vera sem mjög mikill stuðningur sé hjá fagaðilum gagnvart því að farið verði í slíka vinnu. Flestir þessara aðila töldu að brýnt væri að ráðast í verkefni af þessu tagi.

Ég vil líka segja, herra forseti, að á nýafstöðnu umhverfisþingi --- og ég tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, mér þótti þetta umhverfisþing mjög glæsilegt í alla staði og þar fór fram frjó og skemmtileg umræða um öll helstu álitaefni sem uppi eru um umhverfismál í dag og hópurinn sem sótti þingið var mjög breiður sem ég tel vera mjög mikilvægt --- kom fram að þetta verkefni sem lagt er til að ráðist verði í er eitt af því sem mjög margir töldu brýnt að væri farið í. Ég sat í hópi sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir stýrði. Sá hópur átti að fjalla um, ef ég man rétt, brýnustu verkefni í nánustu framtíð eða eitthvað slíkt í umhverfismálum og þar var þetta mjög ofarlega á baugi í umræðunni. Einnig frétti ég í hópi sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir stýrði að í niðurstöðum þess hóps var það eitt af forgangsverkefnunum að ráðist yrði í að gera vistgerðarkort af landinu öllu. Það er það sem við erum að leggja til í þessari tillögu, herra forseti.

En hvað er það nákvæmlega sem við leggjum til? Við leggjum til að tekin verði upp ákveðin aðferðafræði hér á landi sem má segja að hafi byrjað að þróast í kjölfar Ríóráðstefnunnar árið 1992. Í kjölfar þeirrar ráðstefnu breyttist viðhorf til umhverfismála mjög mikið og þjóðir heims hafa lagt áherslu á það annars vegar að endurskoða löggjöf á þessu sviði sem við Íslendingar höfum reyndar gert, en auk þess að þróaðar verði nothæfar aðferðir til að skrá, flokka, meta og vakta náttúruna og skapa þannig grunn fyrir skynsamlega landnotkun, sjálfbæra nýtingu auðlinda og verndun lífríkis. Þessum aðferðum hafa fjölmargar þjóðir, norræn ríki, Evrópusambandsríki og önnur ríki sem eiga aðild að Bernarsamningnum, um verndun villtra plantna og dýra á lífsvæði í Evrópu, beitt með ágætum árangri á undanförnum árum.

[11:45]

Íslendingar hafa verið samstiga öðrum þjóðum í að setja lög og reglur er varða umhverfisvernd og skynsamlega nýtingu náttúrunnar og má segja að við búum við nokkuð svipaðan lagaramma á þessu sviði og önnur Evrópulönd og OECD-ríki. En þegar kemur að grunngögnunum, herra forseti, sem nauðsynleg eru til þess að fyrrgreind umhverfislöggjöf nái markmiðum sínum, erum við eftirbátar annarra ríkja.

Við erum ekki búin að skrá, flokka og meta náttúru landsins í sama mæli og hinar þjóðirnar og að auki er mikið magn af þeim gögnum sem safnað hefur verið ekki nægilega aðgengilegt, t.d. í stafrænu formi. Það hefur í för með sér að við eigum mjög erfitt með að framfylgja alþjóðlegum skyldum sem við höfum tekið að okkur, t.d. hvað varðar skuldbindingar í Ríósamningnum um líffræðilega fjölbreytni, Bernarsamningnum fyrrnefnda, tengdum verkefnum o.s.frv.

En hvaða afleiðingar hefur þessi gagnaskortur í för með sér? Meðal annars að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er mun dýrara hér á landi en í grannríkjum okkar. Munurinn felst fyrst og fremst í því að hér á landi geta framkvæmdaraðilarnir ekki gengið að góðum gögnum um náttúrufar á viðkomandi svæði. Þeir þurfa sjálfir að byrja að afla grunngagnanna, oft með dýrum grunnrannsóknum. Ef við tökum t.d. Svíþjóð og Finnland sem dæmi þá hefur þar verið lögð áhersla á að skapa góðan grunn sem er til staðar og það nægir síðan framkvæmdaraðila í mörgum tilfellum að gefa upp staðsetningu fyrirhugaðrar framkvæmdar. Þá getur hann, án frekari vettvangsathugunar, fengið upplýsingar um náttúrufar svæðisins og verndargildi þess.

Þessi gagnaskortur háir líka gerð skipulagsáætlana hér á landi, en eins og við vitum er landið allt skipulagsskylt núna. Þetta hefur haft það í för með sér að mörg sveitarfélög þurfa sjálf að kosta dýrar rannsóknir til að afla nauðsynlegra grunngagna um náttúrufarið.

Landsáætlanir sem gert er ráð fyrir í náttúruverndar- og skipulagslögum, svo sem rammaáætlun um virkjun jarðhita og fallvatna eða náttúruverndaráætlun, eru einnig illframkvæmanlegar vegna þessa gagnaskorts. Það má því segja að grunnur skynsamlegrar landnotkunar á sjálfbærri nýtingu náttúrunnar sé mjög ótraustur.

Ein afleiðing gagnaskortsins er líka sú að hvorki löggjafarvaldið né framkvæmdarvaldið hafa sett skýrar línur er varða kröfur um lágmarksgögnin, um gæði gagnanna, lágmarksgæði þeirra, sem ætti í raun og veru að leggja til grundvallar við gerð skipulagsáætlana eða við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að kröfur eru misjafnar, óljósar, og skapa skilyrði fyrir ágreining um ákvarðanir. Við þekkjum það úr umræðunni við mat á umhverfisáhrifum hér á landi að það er oft mikill ágreiningur, oft mun meiri en í nágrannaríkjunum, vegna þess m.a. að það kemur ekki alltaf fram eins og t.d. í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar kom m.a. fram að ekki væri í öllum tilvikum ljóst hvaða gögn stofnunin teldi þurfa að liggja fyrir til að unnt væri að meta áhrif viðkomandi framkvæmdar. Og það leiðir af sjálfu sér að þá er erfitt fyrir framkvæmdaraðila að meta það hvenær nauðsynlegt er að leggja í kostnaðarsamar rannsóknir á svæðum sem ætlunin er að raska og ósamræmi vill verða í kröfugerðinni. Í raun og veru hefur framkvæmdaraðilinn ekki sambærilegt mat á milli svæða. Það er oft mjög lítið vitað um svæðin þegar farið er af stað í rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum.

Það sem kannski mestu skiptir er það að á meðan kröfur um gögn er varða náttúrufarsþætti og gæði þeirra hafa ekki verið skilgreindar, verður mat á verndargildi náttúrufyrirbæranna og verðmæta þeirra háð tilviljunum og geðþótta. Það er kannski það sem er meginmarkmiðið með þessu öllu saman, að við búum okkur til eða tökum upp aðferðafræði sem aðrar þjóðir hafa beitt með góðum árangri til þess að reyna að leggja mat á náttúruna, þannig að umræðan verði ekki alltaf á tilfinningagrunni fyrst og síðast. Umræðan um náttúruvernd er og verður alltaf að einhverju leyti tilfinningabundin og á að vera það, að mínu mati. En við verðum samt að hafa einhverja mælikvarða. Ég held það hjálpi okkur og hjálpi okkur líka til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

En þessi ályktunartillaga leggur til að það verði bætt úr þessum mikla skorti á grunngögnum og að við beitum sömu vinnubrögðum og þeim sem grannþjóðirnar hafa notað með góðum árangri.

Ég vil líka geta þess, og það kom einnig fram á umhverfisþinginu, að það er komin nokkur reynsla á þessi vinnubrögð hér á landi þar sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur beitt þeim við öflun grunngagna fyrir rammaáætlun um virkjun jarðhita og vatnsfalla og fyrir mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Það hefur einnig verið stigið fyrsta skrefið við flokkun og skilgreiningu vistgerða á landsvísu með því að kanna skipulega allar lýsingar og skilgreiningar á vistkerfum Evrópusambandsins og þær viðbætur sem unnar hafa verið fyrir norðlægar vistgerðir. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu um náttúruverndargildi á virkjunarsvæðum norðan jökla, þar hefur verið ráðist í þessa vinnu. Þannig hafa þessi vinnubrögð verið þróuð að nokkru leyti hér á landi og þeir sem vinna í þessum geira eru farnir að tileinka sér þessa aðferðafræði að einhverju leyti.

Það er líka mjög mikilvægur þáttur sem kemur fram í tillögunni sem snýr að lágmarksgögnum og lágmarksgæðum gagna, vegna þess að ég tel að það eigi ekki að vera svo mikið háð mati framkvæmdaraðila, sem er sjálfur að fara út í viðkomandi framkvæmd, hversu ítarleg gögn eigi að vera eða hver gæði þeirra eigi að vera. Þarna tel ég að umhverfisyfirvöld eigi að koma fram með mun skýrari fyrirmæli en staðreyndin er í dag.

Það er gerð grein fyrir því í tillögunni hvað átt er við með náttúrufarskortum. Það er ekki sjálfgefið að allir átti sig á hvað átt er við með því. Þá erum við að tala um mismunandi þekjur af upplýsingum er sýna t.d. vistgerðir sem endurspegla gróðurfar, dýralíf og jarðvegsgerð, búsvæði tegunda sem þarfnast sérstakrar verndar og sérstæðar jarðmyndarnir og náttúruvætti, svo og þekjur er sýna staðsetningu mikilvægra svæða fyrir spendýr, svo sem selalátur og burðarsvæði hreindýra og mikilvæg fuglasvæði á borð við fuglabjörg og önnur mikilvæg varplönd, viðkomustaði fartegunda og vetrarstöðvar er hafa alþjóðlega þýðingu fyrir fuglastofna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra um þessa tillögu. Ég vil hvetja hæstv. umhvrh. til þess að taka svolítið af skarið í þessu máli og teldi það raunar vera mjög við hæfi í kjölfar umhverfisþingsins sem var haldið nýverið að hæstv. umhvrh. mundi taka svolítið frumkvæði og setja af stað vinnu hvað þetta varðar. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er allt saman spurning um peninga, þetta kostar allt saman eitthvað. En það má, svo fremi sem sett hefur verið fram skýr stefna af hálfu umhverfisyfirvalda, byrja að veita í þetta fjármuni smátt og smátt þannig að þessi vinna geti farið af stað af svolitlum krafti, því ég held að það muni spara okkur þó nokkra fjármuni þegar fram í sækir. Það mun hafa í för með sér minni deilur um landnotkun og nýtingu náttúrunnar en uppi hafa verið og skýrari mælikvarða á það hvað eigi að koma fram þegar mat á umhverfisáhrifum framkvæmda fer fram. Það mun þar af leiðandi, herra forseti, held ég, gera framkvæmdina við lögin um mat á umhverfisáhrifum mun auðveldari og kannski minna um pólitískar ákvarðanir.

Það er mjög mikill þungi í pólitísku ákvörðuninni við mat á umhverfisáhrifum eins og staðan er í dag. Þó það sé ekki ástæða til þess að fara fram hjá þeirri ákvörðun verður að vera til staðar eins góður faglegur grunnur og við mögulega getum búið til. Þá verður pólitíska ákvörðunin auðveldari og byggð á sterkari faglegum forsendum. Þannig að ég legg til, herra forseti, að hæstv. umhvrh. taki þessari tillögu vel og að henni verði að umræðu lokinni vísað til hv. umhvn.