Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:54:21 (741)

2003-10-17 11:54:21# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um að það sé nauðsynlegt að skrá náttúru landsins því það mun auðvelda mat á umhverfisáhrifum og gera þá vinnu gagnlegri og miklu markvissari en nú er og mun örugglega leiða til þess að mat á umhverfisáhrifum verði betra.

Það eru ákveðnir hlutir sem ég hef leyft mér að gagnrýna varðandi umhverfisþingið. Mér þykir mjög miður að hafa ekki komist á þetta þing, því það var haldið á meðan þinghald stóð yfir. Mér finnst það gagnrýnisvert að hafa umhverfisþing á meðan þinghald stendur yfir á Alþingi.

Annað sem ég hef leyft mér að gagnrýna varðandi þetta umhverfisþing, og finnst rétt að komi hér fram, er aðkoma frjálsra félagasamtaka að þessu þingi. Ég er sannfærður um það að ef frjáls félagasamtök hefðu haft greiðari aðgang að þessu þingi hefði það verið betra.

Að öðru leyti fagna ég því að þingið hafi farið vel fram og hafi skilað miklu eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur greint frá.